Enn er ég í Baskalandi, enn er ég norðanmegin Ebro-fljótsins. En ég hef flutt mig. Í morgun keyrði ég frá San Sebastian í suð-vesturátt og endaði í námunda við borgina Logrona á sérlega fallegu hóteli sem kanadíski arkitektinn Frank Gehry hefur teiknað. Frank þessi er þekktastur fyrir að hafa teiknað Guggenheimsafnið í Bilbao. Ætli það sé ekki bara rétt að fegurðin sé kjarni lífsins.
Og hér er fallegt. Allt um kring eru vínekrur. Þær breiða sig upp hlíðar og inn dali. Einmitt nú loga vínekrurnar; græni laufliturinn hefur vikið fyrir haustlitunum; rauðum, brúnum, gulum og ljósgrænum og allt þar á milli. Og allt snýst um vín á þessu svæði sem liggur rétt norður af Rijoca héraðinu.
Á morgun flýg ég til baka til Danmerkur.
Ég las í gær að Per Petterson, norski rithöfundurinn, hefði gefið út dagbók sína frá kóróna-einangrun sinni; það er dagbók tveggja ára. Bókin er nýkomin út í Noregi og fær ansi blendna dóma. Sex stjörnur í einu dagblaði og eina stjörnu í öðru. Það vakti kannski mesta athygli mína að Per Petterson segir frá því í dagbókinni að hann hafi skrifað um það bil tuttugu línur síðastliðin tvö ár í skáldsögu sem hann hefur unnið að í sex ár. Ekki mikil afköst og mér finnst það svolítil huggun að vita að aðrir eigi ekki alltaf auðvelt með að skrifa. Ég set ekki margt á blað þessa dagana enda ekki kjörið að sitja við skriftir á ferðalagi. Það skipir kannski ekki neinu máli. Yfirhöfuðið, eins og sagt er.
ps. Það segir kannski meira en nokkuð annað um hugarástand útlagans að í morgun, rétt fyrir sólarupprás, gekk ég aftur upp á hæðina í San Sebastian með Jesústyttunni. Það var fallegt að horfa yfir bæinn í morgun, sjá sólina skríða yfir fjöllin og lýsa skyndilega upp alla borgina. Himinninn var heiður og ekki bærðist hár á höfði í morgunstillunni.
