Spjót bókmenntaprófessorsins

Ég var dálítið spenntur þegar bók Guðna Elíssonar, Ljósgildran, kom út fyrr í haust. Þetta er mikill doðrantur, 800 síður, og ég hef lesið að höfundur sé einna stoltastur af vel heppnuðum strúktúr bókarinnar. Ég heyri utan af mér að Guðni fjalli af nokkru háði um íslenskt bókmenntalíf, og að ýmsir merkisberar íslenskra bókmennta verði fyrir spjóti bókmenntaprófessorsins. Bókin virðist ekki fá þann meðbyr sem höfundur hafði væntanlega vonast eftir því nú virðist bókin hjúpuð nokkurri þögn. Að minnsta kosti verð ég ekki var við Ljósagildruna eða umræðu um hana hingað til Danmerkur. Kannski líð ég fyrir að ég er ekki virkur á facebook eða instagram en ég er hættur að skoða þá miðla.

Hins vegar virðist Hallgrímur Helgason á einhvern hátt alltaf ná að beina sviðsljósinu að sjálfum sér og nú væntanlegri bók sinni, annarri 60 kílóa bók. Ekki veit ég hvort almenn spenna sé fyrir sögunni eða hvort eftirvæntingarfullir lesendur bíða í röðum – um það er erfitt að dæma – en skáldinu tekst á sinn hátt að koma bókinni á dagskrá.  Forlagið og starfsmenn þess virðist líka leggja sérstaka áherslu á að kynna bókina hans Hallgríms. Sennilega hefur bókin verið valin flaggskip útgáfunnar í ár. Hingað berast líka fréttir af bók Fríðu Ísberg, Merking. Gaman að þessi geðþekki rithöfundur veki athygli. Af öðrum bókum er fátt að frétta.

Ég er einna spenntastur fyrir bók Bergsveins Birgissonar sem ég veit ekki enn hvað heitir en mér er kunnugt um að skáldsaga sé á leiðinni með skipi til landsins og ég vona heitt og innilega að hann fái sölumeðbyr í vikunum fyrir jól. Ég kann vel við Bergsvein og mér finnst hann sérlega snjall höfundur. Hin bókin sem ég hef áhuga á að lesa er bók Hildar Knútsdóttur, Myrkrið milli stjarnanna. Ég las þríleik hennar, Nornina, Ljónið, Skóginn og mér þóttu þær bækur fyrirtak. Bókina Myrkrið milli stjarnanna hef ég nú fengið í hendurnar, alla leið frá Íslandi, og mun ég hefja lestur hennar þegar ég hef lokið því sem nú er á náttborðinu hjá mér, eins og maður segir. Kápan finnst mér að minnsta kosti mjög flott.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.