Ég fékk vinsamlega athugasemd við Kaktus-skrif mín í gær þar sem ég sagði frá því hvernig hið nýhafna jólabókaflóð birtist mér hér í Danmörku, sem sagt fjarri vettvangi atburða. Það voru víst nokkuð margar bækur sem ég hafði látið hjá líða að nefna sem þó „væru þess virði“ að ég segði frá í dagbók minni, stóð í bréfinu. Í bréfinu voru nefndar nokkrar bækur sem enn ekki hafa fengið athygli. En „þú lætur blekkjast af glamri sölumannanna.“ Ég geri ráð fyrir því að það sé að sumu leyti rétt athugað. Þó missi ég af því versta af sölumennskunni þar sem ég skoða ekki samfélagsmiðlana.
Í sama bréfi segir bréfritari að sjálfur sé hann að því komin að hætta að skrifa bækur (ég held þó að höfundurinn hafi unnið fleiri en ein bókmenntaverðlaun fyrir bækur sínar). „Rithöfundrinn í mér er að því kominn að segja upp … hættur að nenna að skrifa bækur … honum leiðist svo þessi hvimleiða sölumennska sem lögð er á starfsstéttina í dag, þessi sjálfhverfa og oft innistæðulausa sjálfsupphafning. Svo virðist sem eilífur dans á einhverjum opinberum miðlum sé eina leiðin til að vera tekinn alvarlega sem rithöfundur. Þetta er meira en hvimleitt … og ég get ekki fengið mig til að taka þátt í þessu. Ég er úr sveit og þar þykir það ekki við hæfi að trana sér fram.“
Ég tek að mörgu leyti tekið undir orð skáldsins og ég hef heyrt fleiri íslenska rithöfunda minnast á þessa skugghlið rithöfundastarfsins. Þróunin er þó ekki bara bundin við Ísland og íslenskan bókamarkað. Ég verð var við sömu tilhneigingu bæði hér í Danmörku og víðar í Evrópu. Það verður sennilega ekki aftur snúið. Þeir sem vilja helga sig ritstörfum – og þetta á væntanlega við um alla listamenn – og ná að lifa af þeirri iðju verða sennilega að gangast við þessum nýju starfsskilyrðum.
ps.
Ég kláraði að lesa eina bók í gær og tók því fram bók Hildar Knútsdóttur, Myrkrið milli stjarnanna, sem ég hafði fyrir stuttu fengið senda frá Íslandi. Mér finnst bók Hildar byrja prýðilega. Sagan er vel skrifuð og textinn áreynslulaus. Strax á fyrstu síðu fær maður áhuga á sögunni. En ég velti fyrir mér hvers vegna höfundi sé svo í nöp við karlpersónur sínar. Ég er bara búinn að lesa 20 blaðsíður (rétt byrjaði í nótt) og ég held að fjórir karlmenn hafi verið kynntir til sögunnar á þessum fyrstu síðum og allir eru þeir töluvert gallaðir: 1) Stefán, ofbeldisfullur karlmaður (ástmaður?), 2) Heimskur, gamall, áhugalaus, óhæfur, hrokafullur karllæknir (andstæða hans; velviljaður, hæfur, ungur, umhyggjusamur kvenlæknir er í sömu mund kynntur fyrir lesendum). 3) Karlmaður á bar í hópi með hávaðasömum, gleiðfættum karlmönnum („af hverju þurfa karlmenn alltaf að taka svona mikið pláss?“). Og svo 4) vesalings afgreiðslukarlmaður í búð sem þykist hafa vit á einhverju sem hann hefur ekki hundsvit á. Óttalega ólánlegur starfsmaður. Nú hef ég einungis lesið fyrstu 20 síður bókarinnar svo þetta á kannski eftir að breytast en ég varð svolítið undrandi.
Ég hafði sem sagt nýlokið við aðra bók í gærkvöldi þar sem öðrum höfundi er líka tíðrætt um hversu ómögulegir karlmenn séu; ofbeldisfullir, yfirgangssamir, duglitlir en frekir, heimskir, durgslegir, peningagráðugir, valdagráðugir, tilfinningalausir og sjálfselskir … Maður fer að halda að allir heimsins karlmenn séu skelfilegir gallagripir?