Ég heyrði í gær samtal ungrar danskrar skáldkonu við einn af ritstjórum forlagsins sem ég vinn stundum fyrir. „Hvernig raðar þú öllum bókunum sem þá átt í bókahillurnar heima hjá þér?“ spurði ritstjórinn. Þetta var greinilega dálítið mikilvæg spurning því í svip hennar las ég eftirvæntingu og hún hallaði sér fram til að heyra betur þegar skáldkonan svaraði.
„Ég verð bara að viðurkenna að ég get alls ekki átt í neinskonar innilegu sambandi við fólk sem raðar bókunum sínum eftir lit … sem sagt litnum á kápukilinum.“
„Nei …“ svaraði ritstjórinn og beið augljóslega spennt eftir hinu eiginlega svari.
„Ég raða öllum mínum bókum í stafrófsröð, sem sagt eftirnafn höfunda í stafrófsröð,“ bætti skáldkonan loks við.
Þetta samtal varð til þess að ég skoðaði bókahillurnar mínar af töluverðri nákvæmni þegar ég kom heim í gær. Bókunum mínum er alls ekki raðað í litakerfi, það er augljóst þegar maður lítur yfir hillurnar. Samkvæmt því eru bókahillur mínar að minnsta kosti ekki fyrirstaða þess að skáldkonan danska eigi innilegt samtal við mig. Hvort sem ég óski þess eða ekki. Þegar ég raða í bókahilluna mína vel ég að setja þá höfunda saman sem ég held að hafi gaman hvor af annars nærveru. Það þarf ekki endilega að vera vinskapur milli rithöfundanna heldur eitthvað sem sameinar sálarlíf þeirra að mínu mati. Og þegar ég skannaði hillurnar hjá mér með gagnrýnu hugarfari ákvað ég að flytja Steinunni Sigurðardóttur frá Hallgrími Helgasyni. Þau eru bæði með bækur á jólamarkaði og ég held að það sé töluverð samkeppni á milli þeirra. Eins flutti ég Tove Janson þannig að hún hafði John Fowles annars vegar en Ishiguro hins vegar. Sennilega myndast góðir straumar á milli þeirra. Eins flutti ég Gerði Kristnýju frá öðrum íslenskum rithöfundi alla leið til Kristjáns B. Ef einhver skilur Gerði þá er að Kristján B. og öfugt geri ég ráð fyrir.
Eins gerði ég alveg sérstaka uppstillingu fyrir sjálfan mig (ég nýt forréttinda) svo ég yrði í sérlega góðum félagsskap. Ég setti tvær af mínum eigin bókum í námunda við Einar Áskelsbækur Gunnillu Bergström og nokkrar af bókum Ole Lund Kirkegaard.