Í gærkvöldi var ég boðaður með stuttum fyrirvara í hús hér í bæ um kvöldmatarbil. Þetta var kærkomið boð enda gestgjafarnir skemmtilegir en ég skynjaði að það lá eitthvað að baki þessu góða boði. Enda kom í ljós að gestgjafarnir höfðu fundið gjöf – afmælisgjöf, því bráðum á ég afmæli – sem þeim fannst passa svo vel við mig að þau gátu ekki beðið með að afhenda gjöfina. Þegar ég tók upp pakkann skyldi ég vel spenninginn í þeim. Þau höfðu fundið handa mér einstaklega fallega kind úr furðusteini.
Ég hef verið mikill aðdáandi kinda og lamba, sérstaklega í bókmenntum. Þegar ég skrifaði síðustu bók gaf ég þremur kindum örlítið hlutverk í bókinni minni. Mér til ómældrar gleði skildi Valgerður Benediktsdóttir hjá Forlaginu mikilvægi þessara dýra í sögunni sem mjög einfalt er að horfa framhjá.
Ég gleymdi að segja sjálfum mér hér á Kaktus að ég kláraði bók Hildar Knútsdóttur í fyrradag. Bókin er fljótlesin. Í stuttu máli hafði ég gaman af bókinni en ég viðurkenni að mér fannst endirinn full snubbóttur fyrir minn smekk. Ég hef ekkert á móti opnum söguendi en þessi snögglegu sögulok voru kannski aðeins í yfirkantinum fyrir mig. Ég skoðaði meira að segja prentverkið til að skoða hvort síður hefðu losnað aftast úr bókinni og glatast. En svo er greinilega ekki. Endirinn er bara svona brattur.