Þó að bréfin til mín séu oft lengi á leiðinni berast þau þó á endanum, hugsaði ég þegar ég fiskaði umslag merkt sjálfum mér úr póstkassanum. Bestu bréfin eru þau með handskrifað nafn viðtakanda. Ég skoðaði áritunina nákvæmlega en var ekki vissi hver var sendandi – ég hefði mínar grunsemdir – enda var ekkert sem gaf það til kynna á umslaginu.
Bréfið tók ég með mér inn þótt ég hefði í raun verið á leið út í langhlaup; klæddur hlaupaskóm og hlaupafötum. Ég lagði hvítt umslagið á eldhúsborðið – ég var einn í eldhúsinu – og opnaði varlega. Fallega samanbrotið, handritað bréf frá norskum félaga mínum, kúrði sig niður í umslaginu. Í stuttum skilaboðum var mér bæði boðið í kvöldmat í Osló, en bedre middag!, eins og bréfritari orðaði það og frí afnot af almenningssamgöngum í borginni svo lengi sem ég lifi. Þessi sending gladdi mig mikið.
Einnig fylgdi sendingunni ljósmyndabók þar sem viðfangsefni ljósmyndara – áhugaljósmyndari samkvæmt bókakynningu – eru látlausar myndir af fólki og heimilisinnréttingum í norður-Noregi. En bókin er einskonar lofsöngur til íbúa þessa hluta Noregs, þar sem „fólk þorir að vera eins og það er,“ eins og höfundur skrifar í formála.