Þegar ég sit á kvöldin við vinnu blasir þessi hnöttur við mér. Inni í honum er lítil ljósapera sem lýsir jörðina innan frá. Mér finnst gott að hafa þessa upplýstu jarðkúlu við hlið mér. En ég hef oft velt fyrir mér, án þess að gera neitt í því, af hverju ég láti hina afrísku heimsálfu alltaf snúa að mér, af hverju ég hliðri ekki hnettinum til þannig að önnur heimsálfa sem ég hef meiri mætur á blasi við mér.
Ég er enginn aðdáandi Afríku. Eftir að ég ferðaðist aðeins um álfuna fyrir tæpum tíu árum hef ég ekki verið sérlega hrifinn af þessum heimshluta; hvorki af landslagi né þjóðunum sem þar búa. Mig langar ekki aftur til Afríku. Asía, Ameríka og Evrópa eru ofar á blaði og áhugaverðari heimshlutar.