Afstaðan til sannleikans – að þóknast lesendum sínum

Myndin hér að ofan er af Rachel Cusk og það er ekki að ástæðulausu að ég birti mynd af skáldkonunni. Þessa dagana les ég nýju bókina hennar The Second Place. Ég er gífurlega hrifinn. Og þegar ég hugsa til skáldkonunnar, sem ég hef aldrei hitt eða séð í eigin persónu, dettur mér alltaf í hug – af undarlegum ástæðum – afstaða rithöfunda til sannleikans eða hin erfiða afstaða rithöfunda til sannleikans, afstaða sem maður sér kannski ekki eins greinilega í sköpun annarra listamanna.

Að skrifa bækur er hjá mörgum rithöfundum tengt því að þóknast lesendum sínum og starf margra þeirra snýst fyrst og fremst um að selja bækur, snýst um success – mismikið auðvitað. Allt kerfið í kringum bókaútgáfu byggir á sölu bóka, forlagið velur þá höfunda sem það telur söluvænlega og því söluvænlegri höfundar eru því heitar elskar forlagið höfundinn. Höfundur gera því sitt til að gleðja lesendur sína og fá velþóknun þeirra. Þetta er vandi rithöfunda þegar þeir taka sér stöðu gagnvart sannleikanum; og vandinn er markaðurinn, útgefandinn og hið kapítalíska kerfi sem bókamarkaðurinn byggir á. Skrifar rithöfundurinn það  sem honum býr í brjósti eða skrifar hann það sem hann telur lesendur vilja lesa?

Hvað er sannleikur, gæti maður spurt. Og hér stígur sjálf Rachel Cusk á svið því ég las í einu viðtali við hana – og það fannst mér góður punktur – að í hennar huga birtist sannleikur lesendum þegar þeir uppgötva að þeir vissu ekki það sem þeir vita, en þekkja það þegar þeir lesa það. Og einmitt þetta er sú besta, sú öflugasta, sú magnaðasta tilfinning lesanda; þegar maður uppgötvar að maður lesi eitthvað satt. Tilfinningin að þekkja eitthvað sem hefur búið með manni án þess að maður hafi gert sér grein fyrir því og rithöfundurinn getur með skrifum sínum birt lesandanum þessa ómeðvituðu vitneskju, þennan grafna sannleika.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.