Handrit við sundlaug

Á hlaupaleiðinni í morgun sá ég þennan bíl sem er á myndinni. Ég hef margoft tekið eftir bílnum þegar ég hleyp í gegnum Snekkersten þar sem honum er lagt við gangstétt á Strandvejen. Og alltaf verður mér hugsað til baka til þeirra daga þegar ég gaf út bækur á Íslandi og sérstaklega er það ein bók sem kemur í hugann. Þessi brúnmálaði fjallajeppi er af tegundinni Volvo Lapplander. Einmitt sama tegund og Huldar Breiðfjörð keypti til að keyra hringinn í kringum Ísland í janúar. Huldar, sem á þessum tíma varla hafði komið út fyrir 101 Reykjavík, hafði hugsað sér að nota bílinn bæði sem farskjóta og svefnstað. Um þetta ferðalag skrifaði Huldar bókina Góðir Íslendingar.

Ég man enn þegar ég fékk handritið að bók Huldars sem ég þekkti þá ekki neitt. Ég var á leið í sund í útilauginni í Kópavogi með mín litlu börn þegar mér barst handritið og ákvað að taka það með mér ef svo ólíklega vildi til að mér gæfist tími til að lesa á bekk í sólinni með börnin léku sér í sundlauginni. Ég sé enn fyrir mér þegar ég tók handritið úr brúnu umslagi. Það var prentað með nálaprentara og ég lagðist á sólbekk við sundlaugina og hóf lesturinn. Ég þurfti varla að lesa meira en 30 blaðsíður til að átta mig á að þessa bók vildi ég gefa út, ég var himinlifandi.

Satt að segja veit ég ekki hvort þessi bíll sé ökufær, ég efast um það því hann hefur ekki verið hreyfður úr stað í margar vikur.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.