Lyktin af hlaupandi fólki.

Myndin hér að ofan er óræð. Þetta er mynd af hafi, landi og himni. Það er ekki tilviljun að einmitt þessi mynd er sett efst í dagbókarfærslu dagsins. Því það sem mér er efst í huga er einmitt þarna á milli. Milli hafs og himins, milli lands og hafs, milli himins og jarðar.

 1. Ég svaf órólega og ég hef sofið órólega síðustu nætur. Hvað veldur óróanum er ekki gott að segja en mér dettur í hug orð konu sem ég þekkti einu sinni. Hún sagði að maður mætti ekki borða kartöflur á kvöldin því þær yxu á næturnar og því væru þær vondar fyrir nætursvefninn. Sama gilti um lax. Lax mætti maður ekki borða á kvöldin því laxfiskar hefði svo kröftug sporðaköst að laxneysla að kvöldi ætti það til að eyðileggja svefninn og valda óróa og vondum draumum. Ég hef hvorki borðað kartöflur né lax upp á síðkastið svo það er ekki skýringin á óróa mínum. En mér detta orð konunnar oft í hug.
 2. Myndin á líka að fanga lykt sem svífur um loftið. Þegar ég hleyp á morgnana tek ég greinilega eftir lykt þeirra sem ég hleyp fram hjá eða ég mæti. Ég er með stórt nef. Í morgun mætti ég hlaupandi konu. Hún virtist aðframkomin á hlaupum sínum. Hún var eldrauð í framan, dró lappirnar og andardrátturinn minnti á andarslitur. Þegar ég kom inn í lyktarstraum hennar fann ég lykt sem minnti mig svo mikið á lykt af blóminu túnfífli (Taraxacum officinale). Í lyktarstraumi karlmanna tek ég eftir að sumir bera á sig sterka lykt, ég veit ekki hvort það er rakspíri eða einhver líkamsolía sem menn steypa yfir sig, en margir karlmenn hafa mjög yfirgnæfandi lykt sem kæfir meira segja fýluna úr útblástursrörum bíla sem þjóta eftir Strandvejen.
 3. Þótt ég reyni að hugsa ekki um bókina sem ég skrifaði síðasta vetur og kom líklega út í október get ég ekki að því gert að ég velti stundum vöngum yfir afdrifum hennar. Kom hún kannski aldrei út, lifi ég í einhverri blekkingu hérna í Danmörku. En bráðum kem ég til Íslands (á fimmtudaginn) og þá get ég kannað hvort bókin fáist á íslenskum bókamarkaði eða hvort hún sé bara til í höfðinu á mér.
 4. Annað sem fyllir hugann núna er tónlist Joan As Policewoman eða réttara sagt nýja platan hennar með trommaranum Tony Allen.
 5. Ég vona að einhver íslenskur útgefandi telji í sig kjark og gefi út Rachel Cusk, þó ekki væri nema síðustu bókina hennar, The Second Place.
 6. Stundum dettur mér í hug söngur sem sunginn var fyrir mig af ókunnugri röddu í gegnum símalínu fyrir nokkrum mánuðum (ég man ekki hvenær). Þetta verkaði ekki illa á mig; að einhver hefði tekið upp á því að velja símanúmerið mitt (sem er útlent) og hafa engin skilaboð til mín önnur en þennan skrýtna söng sunginn með glaðhlakkalegri röddu:
  „Hér kemur succes
  stormandi niður hlíðina mína.
  Hér kemur bíllinn minn.
  Hér kemur kínverska teppið mitt.
  Hér kemur succes.“

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.