„Hvílíkar lygar, hvílík óheilindi.“

Í gær barst mér stutt bréf með þessari blaðaúrklippu. Blaðagreinin er úr gömlu dagblaði – frá árinu 1965 ef ég man rétt. Hver voru orsök þess að vinur minn ákvað að senda mér, hina löngu leið yfir hafið, þessa stuttu grein um „konu sem er nú sporlaust horfin inn í myrkrið“ veit ég ekki. Andlit líða hjá og hverfa. En ég var glaður að fá sendinguna og hugsaði með mér þegar ég las um Björgu Jónsdóttur að sennilega hefðu nú til dags fáar fjölskyldur „þá meginreglu“ sem orðuð er í greininni: „Hjálpaðu þér sjálfur, þá hjálpar drottinn þér.“

„Hvílíkar lygar, hvílík óheilindi.“ Þetta er upphafssetning úr einhverju ljóði sem ég hef einhvern tíma lesið og hafði gleymt en þessar línur spruttu upp í huga mér í morgun þegar ég gekk til móts við hestana sem halda til í haga rétt fyrir utan bæinn. Tilefnið gef ég ekki upp dagbók kær, ég held því inni í mínum litla haus. Hestarnir í haganum eru hins vegar þrír og þeir drekka regnvatn úr hvítu baðkari sem stendur miðju túninu.

Dagurinn styttist, bráðum á að dimma en annars veit ég ekki margt …

ps. Ég gleymdi að taka mynd af hestunum. Ég geri það næst þegar ég heilsa upp á þá.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.