Myndin hér að ofan er af blýantsstubbi sem ég fann á göngu minni í gær. Stubburinn lá á stíg sem liggur að hestahaganum hér fyrir utan bæinn; hálftroðinn niður í forugan moldarveginn. Ég hef á síðustu árum þróað með mér áhuga á blýantsstubbum sem liggja á víðavangi, öllum gleymdir og fyrir flesta ónothæft drasl. Áhugi er sennilega of sterkt orð því ég hugsa aldrei um blýantsstubba, en ég tek þá með mér þegar þeir verða á vegi mínum. Sennilega hefur bók Ole Lund Kirkegaard um Ottó nashyrning haft svo mikil áhrif á mig að á göngutúrum skima ég ómeðvitað gönguleið mína með augunum í leit að göldróttum blýantsstubbum. Ég hef svo sem ekki velt fyrir mér hverju ég vonast eftir að fá út úr týndum blýantsstubbum. Ég geymi þá niður í skúffu. Ætli mig dreymi ekki um að finna galdrablýant sem hjálpar mér að teikna upp ómótstæðilegt töfraverk?
