„Den franske mand“ og sjálft aðalmálið.

Myndin hér að ofan er af bréfi sem mér barst í fyrradag. Þetta er elskulegt bréf frá níu ára gömlu barni sem sendir höfundi bókarinnar Handbók gullgrafarans kveðjur sínar um leið og hún skrifar ritdóm um bókina. Svona bréf hitta höfundinn auðvitað í hjartastað. En það athyglisverða er að þetta er fyrsti ritdómur sem ég les um þessa ákveðnu bók sem kom út snemma í október og sá eini sem fyrir augu mín hefur borið.  „… mér fannst mjög leiðinlegt að Tumi dó, en mjög skemmtilegt þegar GGG var að selja Gull-Cola, mér fannst mjög spennandi þegar Doddi og Húni skrifuðu bréfið …“ Svona hljómar ritdómurinn og er ekki síðri en aðrir ritdómar sem birtast þótt höfundurinn í þessu tilviki sé bara níu ára bókaormur.

Ég segi frá þessu hér þar sem mér barst annað bréf í gær af öðru tilefni. Mér berast stundum tilskrif og ég þakka það ekki öðru en ég er staddur í útlegð fjarri heimahögum (eins og útlagar eru jafnan) og því er bréf kannski hentugt og skemmtilegt samskiptaform. En ég fékk sem sagt annað bréf í þetta sinn frá fullorðnum manni sem yngstu synir mínir tveir kalla „den franske mand“. En í sendibréfinu fjallar hann m.a. um stöðu bókaútgáfu á Íslandi.

„…. Það er náttla aðalmálið – að það gæti verið létt eins og ský frekar en þungt eins og leiðinleg bók, að gefa út bækur og að það væri hægt – einhversstaðar á jaðri þessa bissness – að leika sér eins og þetta væri ekki bissness og alls ekki keppni eða stríð heldur frekar skemmtilegur leikur, eða gjörningur, einhver lifandi orka – þar sem allir væru þátttakendur: höfundurinn, útgefandinn og ekki síst lesendurnir. Það er það sem vantar hvað helst núna í þennan bransa, og kannski í þetta samfélag, það er nefnilega akkúrat það: samfélag – einmitt þetta sem gefur þessu herrans skúespili einmitt merkingu, þ.e.a.s. gefandi samband milli fólks.“

Ég vildi að hin íslensku bókaforlög tækju þessi orð til athugunar. Bókaforlagið Benedikt er kannski næst því að gera bókaútgáfuna að listformi eða að skemmtilegum leik. Ég hef áður reynt að minnast á gildi þess að forlögin séu ekki bara „skelfilegur staður fyrir bækur og höfunda“ eins og annar höfundur sagði við mig heldur væru forlögin höll lifandi orku fyrir sjálfa bókina og höfundana.

Ég sakna þess auðvitað að sjá ekki marga gæðaritdóma birtist á opinberum vettvangi. Þeir verða sífellt færri og minna í þá lagt. (Þeir sem fjalla um bækur, eru aðallega höfundarnir sjálfir um eigin bækur og gildi þeirra. Þessi skondna umræða fer fram á facebook eða instagram. Og þetta er sú bókaumfjöllun sem fær mest rými í íslensku samfélagi; bókakynning höfunda á eigin bókum.) Þetta er þróun sem verður ekki stöðvuð nema með meðvituðu átaki einhvers sem tekur að sér að leiða umræðuna út úr þessum helli. Það er á valdi einstaklinga að gera eitthvað til að snúa þessari þróun við. Lestrarklefinn.is er gott dæmi um áhugamannastarf sem hyllir bókina. En það mætti vel hugsa sér eitthvað stærra og enn áhrifameira. En til þess þyrfti fjármagn (til dæmis til að greiða fyrir skrif og vandaða ritdóma) sem ég er viss um að Félag íslenskra bókaútgefenda mundi fúslega veita ef til þeirra væri leitað með góða hugmynd um eflingu bókaumfjöllunar á Íslandi. En það þarf að virkja besta fólkið, alla þá góðu penna og góðu kolla sem hafa áhuga á bókaútgáfu og bókum, en eyða kannski tíma sínum í að ergja sig yfir þróun mála.  Ef hægt væri að skapa lifandi samfélag um bækur með bestu kollum landsins kæmist þjóðin ansi langt í því að gera sjálfa bókaútgáfuna að listformi, fullt af lifandi orku, galsafullu fjöri, gleði og fögrum litum.

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.