Forlagið okkar

Ég tók þessa mynd í morgun af hvítu skyrtunni minni sem ég klæddist í gærkvöldi í mikilli veislu (300 manns) sem haldin var í tilefni þess að einn af höfundum forlagsins Gutkind – sem hélt veisluna – hlaut hin eftirsóttu dönsku bókmenntaverðlaun De Gyldne Laurbær. Þetta var glæsileg veisla og skemmtileg á sína vísu. Svona stórveislur finnst mér yfirleitt ekkert sérlega skemmtilegar en stemmningin var góð.

En það sem ég vildi sagt hafa. Ég tók eftir að verðlaunahafinn, Stine Pilgaard, sagði alltaf í ræðu sinni (og líka í gærkvöldin í samtali við mig og forleggjara Gutkind) forlagið okkar. Ég varð nokkuð hissa og um leið mjög ánægður fyrir höfundarins hönd að hún gæti talað á þennan hátt um forlagið sitt. Ég held að ég hafi aldrei fyrr hitt höfund sem talar um forlagið okkar við forleggjara sinn. Mundi  Auður Jónsdóttir segja forlagið okkar ef hún mætti Páli Valssyni úti á götu? Eða mundi Einar Már tala um forlagið okkar við Úu Matthíasdóttur? Kannski en ég hef aldrei heyrt það.

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.