Ég átti samtal við unga konu í gær úti rigningunni. Þetta var ánægjulegt samtal. Venjulega er ég ekki að velta samtölum mínum við fólk mikið fyrir mér. En það var tvennt sem vakti mig til umhugsunar. Í fyrsta lagi var það svo að ef ég bar upp spurningu fékk ég eiginlega aldrei svar heldur alltaf, „ja, hvað finnst þér“ eða „hvernig kemur þér þetta fyrir sjónir?“. Og ekki nóg með það. Ég hafði á tilfinningunni að setningarnar væru samstundis greindar; „þetta var skemmtilega orðað“ eða „getur maður sagt þetta svona?“. Eins og hún væri sífellt að efast um heiminn og reyna að sjá í gegnum hann. Hitt sem vakti athygli mína, og situr svolítið í mér, var þetta sjarmerandi „uhumm,“ á eftir sumum setningunum svona til að staðfesta það sem hún sagði með sinni djúpu rödd. „Uhumm“
Þetta var nú það fyrsta sem mér datt í hug þegar ég settist fyrir framan dagbókina mína. En í morgun hef ég enn og aftur aðeins raðað bókum í bókahillunni minni. Það bætast sífellt við fleiri bækur og þá verður maður að skapa pláss fyrir þær með því að grisja. Ég tók bækur Bergsveins Birgissonar og setti þær við hliðina á bókum Karls Ove Knausgaard. Það fer örugglega vel á með þeim, hugsaði ég. Þeir geta að minnsta kosti talað saman á norsku, Bergsveinn og Karl Ove. Annars hef ég ákveðið að ég lesa bók Bergsveins Birgissonar, Kolbeinsey, yfir jóladagana, jólabók ársins. Það verður gaman.