Það er morgunn og sólin skín á hin hálfsköllóttu tré meðfram Strandvejen. Síðustu gulu haustlaufin halda sér dauðahaldi með fingurbroddunum í greinar trjánna. Ég hleyp hjá. Það er hægur andvari og Eyrarsundið er nánast spegilslétt. Hinum megin sundsins sé ég reyk liðast þráðbeint upp úr verksmiðjuturni. Þetta er sænskur reykur. Og ég hleyp áfram mína tíu kílómetra og um leið hlusta ég á sögu hinnar írsku Claire Keegan, The Small Things Like These. Frábær bók. Ég velti meira að segja fyrir mér þegar ég náði tíu kílómetramarkinu að hlaupa bara áfram og hlusta á bókina til enda. En ég ákvað þess í stað að taka aðra tíu kílómetra törn á morgun og klára bókina þá. Ég verð bara svo glaður þegar ég hitti á góðar bækur til að lesa eða hlusta á. Ég held að ég hefði verið nokkuð góður að finna bækur í gamla neon-klúbbinn minn ef ég væri enn íslenskur forleggjari.
Og ég leyfði mér að stoppa á hlaupaleiðinni til að taka mynd af trjánum og Eyrarsundinu. Það eina sem vantar á myndina, til að gera hana enn betri, eru orð Claire Keegan sem hljóma í eyrum mér á meðan ég smelli af.
ps. Nú er ég byrjaður að tefla aftur – heilaleikfimi. Huldar skoraði á mig í skák um daginn en mér fannst ég þurfa að æfa mig aðeins og tefla nokkrar hraðskákir áður en ég tæki áskorun hans því það er nokkuð langt síðan ég hef teflt. Ég verð að koma vel undirbúinn til leiks – Huldar er sterkur skákmeistari. Ekki vil ég tapa fyrir mér yngri manni. Slíkt gengur ekki.