Til hamingju Ísland.

Ég settist snemma til vinnu í morgun enda hljóp ég ekki í dag. Betra að hvíla hlaupavöðvana inn á milli er mér sagt. Enn var myrkur fyrir utan gluggann minn þegar ég kveikti á tölvunni og dró fram bókina sem ég er að þýða en mundi að ég átti eftir að svara nokkrum tölvupóstum og ákvað að byrjaði morguninn á að afgreiða þá. Og þannig hóf ég daginn. Að því loknu gjóaði ég augunum á bókina sem ég þýði þessa dagana en valdi – sennilega til að fresta hinni eiginlegu vinnu – að skoða fyrst íslensku fréttamiðlana og eina íslenska bókmenntavefinn: Lestrarklefann.

Efst á forsíðu Lestrarklefans blasti við mér auglýsing frá Forlaginu. Þetta var mynd af brosmildum manni með hatt innandyra og nýju bókinni hans. Ég þekkti andlitið strax. Þetta var Hallgrímur Helgason, rithöfundur, sem horfði glettnislega framan í mig. Milli myndanna af Hallgrími og af bókinni hans er áberandi tilvitnun í ljóðskáldið Bubba Morthens prentuð í bláu og feitu Helvetica-letri: „Til hamingju Ísland að eiga rithöfund sem Hallgrím Helgason.“

Ég velti þessu aðeins fyrir mér á meðan ég skoðaði andlit Hallgríms og sagði svo: „uhummm“ eins og kunningjakona mín segir svo flott með sinni djúpu röddu og stóð upp til að setja fyrstu hljómplötu dagsins á fóninn: Jazz på svenska sem þrátt fyrir titilinn er bara mjög fín plata.

Ég á ekkert kaffiduft og því er ekkert kaffi í húsinu. Ég borðaði heldur ekki morgunmat í morgun og því var það á tóman maga sem fyrsta þýðingarsetning dagsins fæddist: „Hvernig gengur? Finnurðu eitthvað?“ spurði Torkel.

ps. Í gær fékk ég heimsókn frá skeggjuðum manni. Hann var líka með hatt. Og mér til nokkurrar undrunar kom hann til að bjóða mér vinnu hjá dönsku forlagi. Ég ætlaði að segja nei takk á staðnum en hann bað mig um að hugsa málið. Ég hef hugsað málið og ég finna að ég er ekki rétti maðurinn í starfið og svarið er því enn nei. Takk.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.