Samtal við ballerínu á skógarstíg.

Ég hitti kunningjakonu mína ballerínuna í morgun á skógarstígnum. Ég var úti að hlaupa mína tíu kílómetra en hún var úti að ganga með hundspottið sitt. Það var gott hlaupaveður, bjart og algjört logn. Kannski átti það sinn þátt í að ég valdi aðra hlaupaleið en ég er vanur; skógarstíginn. Og þarna inni í skóginum var hún, ballerínan, fött, spengileg og brosandi út að eyrum. Hún kom sér fyrir á miðri hlaupabrautinni þegar hún sá mig og breiddi út handleggina svo að ég gæti ekki annað en numið staðar.

„Stoppaðu nú, guli maður,“ sagði hún hlæjandi. „Þú ert síhlaupandi, geturðu ekki stoppað.“
Þótt það væri gegn vilja mínum hægði ég ferð mína þar til ég stóð kyrr fyrir framan þessa hressilegu konu.
„Veistu ekki að það er miklu hollara að ganga en hlaupa. Það er betra að taka hlutunum með hægð en að flýta sér; svífa í stað þess að fljúga.“
„Þetta er örugglega rétt hjá þér,“ sagði ég móður og másandi enda hafði ég hlaupið óvenju hratt.
„Þú veist að tími er orðin ein helsta munaðarvara okkar hinna ríku, það er gífurlegur skortur á tíma.“
„Uhumm,“ sagði ég.
„Ég hef lært að teygja úr tímanum með því að gera hlutina hægt. Þannig fæ ég meiri tíma. Þú veist að menn borga hátt verð fyrir tímann á mörkuðunum. Og ég tala nú ekki um verðið á skorti það er algjörlega brjálað. Það er algjör skortur á skorti. En aftur á móti er offramboð af sjálfsmeðaumkun og sentímentalíteti í okkar heimshluta og markaðurinn er hættur að gefa krónu fyrir slíkt væl.“ Hún hló hátt að eigin speki.
„Þú hefur örugglega rétt fyrir þér,“ sagði ég brosandi. „Ég hugsa um þetta á meðan ég hleyp, þýt í gegnum loftið“

ps. Breaking news. Ég er byrjaður á nýrri bók enda var ég fljótur að klára ég hina írsku Claire Keegan. Stutt bók og fín bók. Skáldsagan sem ég les nú er eftir norska Carl Frode Tiller. Í vikunni fékk bókin 6 hjörtu í Politiken. Dómurinn var svo hástemmdur og lofsamlegur að mynd af skáldinu birtist á forsíðu Politiken með tilvitnun í dóminn. Enn skipta bókmenntirnar máli í þessu landi.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.