Gleðileg tíðindi

Í gær las ég í bókablaði Politiken – bókablaðið fylgir laugardagsblaðinu en rafræna útgáfan kemur á netið seint á föstudagskvöldi –  að í Noregi sé komin út ný bók eftir Linn Ullmann. Þetta voru aldeilis góðar fréttir fyrir mig, kæra dagbók. Þegar ég hugsa mig um held ég að Linn Ullmann sé einn af mínum uppáhaldsrithöfundum og nú eru sennilega sex ár  frá útkomu Hinna órólegu.

Ég var einn heima í gær. Allan gærdaginn og langt inn í nóttina kepptist ég við að þýða og einhvern veginn mannaði ég mig aldrei til að standa upp frá tölvunni, setja músik á fóninn, kveikja ljós eða hella upp á kaffi. Það var því bæði óttalegt myrkur í kringum mig og algjör þögn. Mér tókst þó að komast svo langt í þýðingunni að í dag þýði ég væntanlega síðustu síðu bókarinnar. Ég var nokkuð lúinn þegar ég lagðist upp í rúm til að lesa bókablað Politiken en samt var svefninn fjarri að blaðalestri loknum. Af tilviljun rambaði ég á nýtt og langt viðtal við Sally Rooney, írsku skáldkonuna, sem ég las af áhuga. En einmitt mitt í lestrinum á þessu ítarlega viðtali (þar sem blaðamaðurinn hafði augljóslega sett sig vel inn í bækur og feril skáldkonunnar) datt mér í hug að ég held að ég hafi aldrei farið í viðtal á Íslandi um þær bækur sem ég hef skrifað þar sem viðmælandi minn hefur lesið þá bók sem viðtalið snýst um. Ég hef oft hugsað um það þegar ég sit í viðtalsaðstæðunum (eða hvað maður kallar það þegar maður situr fyrir svörum) hvað það er fánýtt að tala um eitthvað þar sem aðeins annar aðili samtalsins veit um hvað er verið að tala. Mér finnst þetta sérstaklega óþægilegt og ég finn að ég missi áhuga á samtalinu svo það verður aldrei lifandi. Ég á auðvitað ekki að láta aðstæðurnar hafa áhrif á mig heldur hugsa um lesendur viðtalsins ekki viðmælandann. Í mínum huga sýna þessi vinnubrögð auðvitað algjört metnaðarleysi þeirra sem stýra bókmenntaumræðunni í íslenskum fjölmiðlum. (Þegar ég hugsa mig um var ein undatekning á þessu. Sverrir Norland var vel undirbúinn þegar ég talaði við hann í haust. Ég man að ég var svo hissa að ég spurði hann furðu lostinn í miðju viðtali hvort hann hefði lesið bókina.)

Nú er kominn laugardagsmorgunn. Ég er búinn að gera morgunæfingarnar og sest nú aftur við tölvuna til að klára þýðinguna. Enn er þögn og ég finn að ég nenni hvorki til að kveikja ljós né að setja músik á fóninn.

ps með póstinum í gær kom bók sem ég hafði beðið nokkuð lengi eftir. Anton Chekhov, A Life in Letters.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.