Það er síðasti dagur nóvember. Úti rignir svo ákaft að það var hreinlega ekki þurr þráður á hlaupagallanum mínum eftir morgunhlaupið. 10 kílómetrar að baki þótt Garmin-úrið mitt sýndi bara 200 metra. Rigningin setti úrið alveg úr takt. Þegar ég hljóp fram hjá barnaskólanum við enda vegarins í morgun mætti ég svartklæddum karlmanni. Hann virkaði frekar þungur í hreyfingum en þegar hann sá mig koma hlaupandi lifnaði andlit hans og hann brosti breitt til mín og gaf mér merki með þumlinum að honum fannst ég seigur að vera úti að hlaupa í þessari ausandsi rigningu. Það var merkilega notaleg tilfinning að fá þetta „like“ og ég hljóp léttur í spori út Gylfesvej.
Ég mæti oft öðrum hlaupurum á hlaupum mínum og oft sama fólkinu. Það er sérstaklega ein kona sem er skemmtilegt að mæta. Hún hefur afar sérkennilegan hlaupastíl, sveiflar höndunum eins og hún vilji moka loftinu aftur fyrir sig. En þegar við mætumst hefur hún alltaf eitthvað uppörvandi og gleðilegt að segja. „Frábær morgunn.“ „Stórkostlegt hlaupaveður.“ „Það er sprettur á þér, þú ert í svakalega góðu formi.“ „Æ, hvað er gaman að sjá þig.“ „Þú hefur hlaupið langt í dag.“ Alltaf nær hún að kalla eina fína setningu til manns á hlaupunum en aldrei næ ég almennilega að svara í sömu mynt. Mér þykir svo ánægjulegt að mæta þessari glöðu konu.
Ég hef ákveðið að nota þessa viku til að lesa yfir þýðinguna sem ég hef unnið að síðustu mánuði áður en ég sendi hana í prófarkalestur. Og svo er það spurningin hvað tekur næst við? Hvað ætlar útlaginn að taka sér fyrir hendur? Satt að segja veit ég það ekki. Ég velti fyrir mér að þýða næstu bók (ég hef þýðingarverkefni) eða skrifa næstu bók (veit ekki hvort forlagið hafi áhuga á því) eða kannski bara að fara að vinna launavinnu út í bæ eins og almennilegur maður (ég hef enn ekki svarað Gutkind). Engin örvænting hér. Ég velti þessu bara fyrir mér í rólegheitunum. Og enn rignir.