Fyrir hönd Steinunnar?

Það snjóar eða það rignir. Erfitt er að segja hvort það snjói eða rigni því það sem fellur niður af himninum virðist hvítt eins og snjór en um leið og ofankoman lendir á glugganum hjá mér líkist þetta hreinu regni og ekkert sem minnir á snjó. En það blæs kröftuglega frá hafi og ég er feginn að ég er ekki úti að hlaupa í þessu veðri.

Ég ákvað að setjast niður í hornstólinn minn hér á skrifstofunni og lesa í nýrri bók sem ég keypti um daginn; fyrsta klukkutímann á skrifstofunni skyldi ég nota til að lesa. Þetta er góð ákvörðun, hugsaði ég þegar ég lagði bókina frá mér að lestri loknum. Ég fann að allt mitt eirðarleysi og óþarfa hugsanir hurfu eins og dögg fyrir sólu. Mér líkar vel við sögu Judith Hermann, Daheim, (Heima) um konu sem hefur flust úr borg í afskekkt hús við norðurströnd Þýskalands þar sem hún dvelur ein. Þetta er ekki löng bók og ætti ég að geta lesið hana í þremur törnum hérna í hornstólnum

Mér var bent á grein Árna Óskarssonar þýðanda og Þorleifs Haukssonar, sem líka er þýðandi, um bókmenntaumfjöllun Kiljunnar eða réttara sagt umfjöllun Kiljunnar á nýrri bók Steinunnar Sigurðardóttur sem kom út fyrr í vetur. Mér finnst greinin stórgóð, stælalaus, vel skrifuð og málefnaleg. Þetta er vinsamleg ábending til ritdómara að vanda til verka. Eitthvað virðist hafa farið úrskeiðis í dómnum um bók Steinunnar og á það er bent á afar kurteislegan og hógværan hátt.

Ég velti fyrir mér hvað fékk þessa tvo ágætu menn til að setjast niður og skrifa um bókmenntagagnrýni Kiljunnar. Er þeim svona umhugað um gæði bókmenntaumfjöllunar fjölmiðlanna eða eru þeir fyrst og fremst  sárir fyrir hönd Steinunnar?

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.