Að finna það með hjartanu

Það er bæjarferð í vændum; fundur klukkan 11:00 í höfuðstaðnum og nú liggur snjór yfir öllu. Helst hefði ég viljað vera kyrr hér í dag og halda áfram með að lesa yfir þýðinguna.  Fundurinn var skipulagður fyrir löngu og því erfitt að fresta honum og ekki ástæða til.

Í gær sá ég að tilnefningar til Hinna íslensku bókmenntaverðlauna voru birtar. Mér brá satt að segja þegar ég sá fyrirsögnina á RÚV.IS að nú hefði tilnefningarathöfnin farið fram. Ég hafði ekki átt von á að tilnefningarnar væru svona snemma á ferðinni. Ég hafði leitt hugann að því hvort bók mín Handbók gullgrafarans yrði tilnefnd í ár, ég hafði vonað það. En þegar ég las listann yfir tilnefndar bækur kom í ljós að Handbókin var ekki þar á meðal og það urðu mér nokkur vonbrigði. Ég fann það greinilega í hjartanu. Þótt ég hafi varla leitt hugann að bókmenntaverðlaununum í vetur kom mér nokkuð á óvart hversu niðurdreginn ég varð  í gærkvöldi yfir að fá ekki tilnefninguna. En það var bara inni í mér. Nú hugsa ég ekki meira um það. Ég held að þessi sterku sálarviðbrögð tengist því að mér hefur fundist útgáfuferli bókarinnar afar misheppnað.

Tilnefning bókar Hallgríms Helgasonar kom mér ekki á óvart. Allt gengur honum í haginn þessi misserin og allt verður honum að vopni í kynningu á bókinni sinni. Ekki kom það mér heldur á óvart að Arnaldur Indriðason hafi fengið tilnefningu; það lá í loftinu og sömu sögu má segja um bók Guðna Elíssonar. Hún er svo voldug að erfitt er fyrir nefndina að ganga framhjá henni. Ég sakna hins vegar mjög Kolbeinseyjar hans Bergsveins á meðal tilnefndra bóka. Ég hef ekki enn náð að lesa neina af bókunum fimm. Einhverjar á ég örugglega eftir að lesa síðar en ég viðurkenni að á sumum hef ég engan áhuga.

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.