Ég var á fundi inni í Kaupmannahöfn í gær og þar átti ég meðal annars samtal við skáldkonu sem er að gefa út þriðju bók sína í janúar. En það er nú aukaatriði þetta með útgáfudaginn og starfsheiti konunnar. Ég vildi minnast á orð hennar því í miðju samtali okkar segir hún eitthvað á þá leið að maður geti vitað allt sem mikilvægt var að vita um samfélag (af hvaða gerð sem er) af því hvernig samfélagið tekur á móti og kemur fram við hinn ókunnuga, hinn föðurlausa og ekkjuna. Að framkoma við fólkið í útjaðri samfélags væri einskonar þolpróf fyrir samfélag. Mér þótti þetta svo dularfullt og áhugavert að þegar ég kom heim fór ég að kanna hvaðan þessi speki kæmi og sá að í fimmtu mósesbók er þessi hugsun orðuð. Þar segir meðal annars:
„Þegar þú hirðir uppskeruna á akri þínum og gleymir einu kornknippi á akrinum skaltu ekki snúa aftur til að sækja það. Það mega aðkomumaðurinn, munaðarleysinginn og ekkjan fá til þess að Drottinn, Guð þinn, blessi þig í öllu sem þú tekur þér fyrir hendur.
Þegar þú hefur hrist ávextina af ólífutrjám þínum skaltu ekki gera eftirleit í greinum trjánna. Það sem eftir er mega aðkomumaðurinn, munaðarleysinginn og ekkjan fá. Þú skalt minnast þess að þú varst þræll í Egyptalandi.“
ps. Og ég held áfram að lesa Judith Hermann
pps. Ég las líka í nýrri ljóðabók Ragnars Helga Ólafssonar og ég verð að segja að ég furða mig á því að sú bók er ekki á meðal hinna fimm útnefndu til bókmenntaverðlaunanna.