Aftur er kominn mánudagur og ástandið frá síðasta mánudegi nánast óbreytt … þannig. Engin stórtíðindi. Ég hafði ætlað að hlaupa af stað í mitt langhlaup í morgun en ég var óvenju illa haldinn af magaverkjum svo ég ákvað frekar að ganga út í morguninn. Eins og venjulega lá leið mín niður í fjöru, eða niður á strönd. Það er kalt og vindurinn blæs úr austri. Því kom mér á óvart að sjá tvær naktar konur standa á baðbrúnni þegar ég gekk þar framhjá. Það er ekki sérlega gott að baða í sjónum í austanáttinni, en þessi sýn minnti mig á senu úr bók Judith Hermann sem ég var að klára. Mjög fín bók. Ég er glaður að hafa lesið bókina.
ps ég vaknaði í nótt sem sagt með magaverki og ég hélt í kvölum mínum að ég væri búinn að fá þessa kórónaveiru og sá fram á 5 daga rúmlegu. En það var bara ímyndun í mér, ekki magaverkirnir heldur vírusinn. Ég er ekkert veikur.
ps. ég fékk ritdóm í Morgunblaðinu fyrir bókina Handbók gullgrafarans. Hólmfríður María Ragnhildardóttir er ritdómari. Af myndinni sem fylgir dómnum að dæma virðist hún greindarleg kona. Þetta var ekki óskadómur. Ritdómarinn var svo sem ekki neikvæður en ég gat ekki greint neina hrifningu svo mér fannst dómurinn frekar vondur. Eftir að hafa lesið Moggadóminn hvarflaði að mér að ég væri á rangri hillu, hvort ég ætti að nota tíma minn í annað en að skrifa. Kannski ætti ég að fara að vinna við eitthvað annað … t.d. keyra sendibíl eða gerast húsvörður. Svona sveiflast maður frá því að efast um öll mín skrif til að ofmeta sjálfan mig sem bókahöfund.