Það vildi svo til að í gær fór ég ekki út úr húsi. Ég var innandyra frá morgni til kvölds og ég man ekki eftir að þetta hafi gerst fyrr í lífi mínu. Þessa yfirsjón uppgötvaði ég ekki fyrr en ég lá undir sæng í gærkvöldi og velti fyrir mér hvað ég ætti til bragðs að taka í skákinni sem ég tefli við Huldar. Þar á ég undir högg að sækja. Smám saman þrengist svo um mig að mín bíður hægur köfnunardauði. Ég er á leið í hundana.
Strax í morgun reyndi ég að ráða bót á þessu og brjótast út úr sjálfskapaðri einangrun minni. Enn var rökkur þegar ég steig út og setti mig í hlaupastellingar á hlaupaskónum mínum, klæddur gulum hlaupajakkanum. Úti var skelfilega kalt. -6 gráður sem verka alltaf á mig sem -66 gráður hér í Danmörku og ég var húfu- og vettlingalaus þegar ég hljóp af stað. Ég hafði vonast eftir að rekast á einhvern sem ég gæti heilsað, skipst á kveðjum eða jafnvel átt orðaskipti við. En í morgun mætti ég ekki sál á hlaupabrautinni og því greip ég til þess ráðs að syngja á hlaupunum. This Mess we’re in með PJ Harvey og Thom Yorke – gott lag – hljómaði í eyrum mér og ég söng með: Can you hear them? / The helicopters? …
Mér þykir þetta flott lag. Spotify segir í 2021 uppgjörinu að þetta sé uppáhaldslagið mitt. Það kemur mér ekki á óvart.