Í gærkvöldi hafði ég sest í hornstólinn minn og komið mér vel fyrir því ég hafði ætlað mér að sjá leik Bayern og Barcelona í fótbolta. En við hlið mér, á litlu hringborði, lá bók eftir rithöfundinn David Mitchell. Hann kom á bókmenntahátíðina í Reykjavík árið 2014 og sat víst fund hjá leynifélagi í Reykjavík á meðan á dvöl hans stóð. Ég hef heyrt um þann merka fund en sjálfur var ég ekki viðstaddur. En ég hitti danskan mann um daginn sem er sérfræðingur Danmerkur í því sem kallast streymisinnihald fyrir bókastreymisveitur. Þetta er sérkennilegur náungi, skemmtilegur og gífurlega fróður. Hann er fyrir löngu orðinn mjög þekktur í bókabransanum í Danmörku og hafa bæði Storytell og Saxo keppst um að kaupa vitsmuni hans og krafta með gylliboðum (nú vinnur hann hjá Storytell og var áður hjá Saxo og þar á undan hjá Storytell) því þessi maður hefur lesið heil ósköp og veit allt um bækur og hvað fólk vill lesa og hlusta á. Hann hefur yfirmannlega lestrargetu og yfirgripsmikla þekkingu á bókamarkaðinum. Í samtali okkar sagði hann mér að hann læsi þriðju hverju bók sér til ánægju hinar tvær væru tengdar vinnu. Ég spurði hann því hvað væri það besta sem hann læsi og svarið lét ekki á sér standa: „DAVID MITCHELL!“ hrópaði hann. „DAVID MITCHELL!“
Ég hafði auðvitað heyrt um rithöfundinn David Mitchell en ég hafði aldrei lesið neitt eftir manninn. „Á hvaða bók á ég að byrja?“ spurði ég sérfræðinginn.
„The Bone Clocks.“
Og ég fór út í búð og keypti The Bone Clocks, að vísu á dönsku (Knogle urene) því enska útgáfan var ekki til. Og það var einmitt þessi bók sem lá við hliðina á mér þegar ég settist til að horfa á fótboltaleikinn milli Bayern og Barcelona. Ég opnaði bókina af rælni, las fyrstu setningu bókarinnar og svo gleymdi ég öllu um fótboltaleikinn og rankaði ekki við mér fyrr en leikurinn var búinn (Barcelona skíttapaði) og ég var búinn að lesa fyrstu fimmtíu síður bókarinnar (þetta er hnullungur, 640 þéttritaðar síður). Þvílík saga. Ég hlakka til að halda áfram.
En það var eitt annað sem mig langaði að minnast á því þetta er mikilvægt fyrir mig að muna. Á hlaupum mínum í morgun (10.02 km) hlustaði ég sem oftar á útvarpsþáttinn Heimskviður í umsjón Birtu Björnsdóttur og Guðmundar B. Þorbjörnssonar. Þetta eru stórfínir þættir, vandaðir og vel fluttir. Birta og Guðmundur vanda sig, vinna vel úr efnivið sínum og þau eru áheyrileg. Mikið er maður heppinn að RÚV sé enn til og mikið er maður heppinn að það séu enn svona margir góðir útvarpsmenn að störfum.