Niðurstaða stjórnarformannsins

Undanfarna þrjá daga hef ég safnað yfirskeggi, moustache. Þetta gerði ég mér til skemmtunar og þegar ég leit í spegil í morgun til að sjá hvernig ég liti út ákvað ég að raka skeggið í burt. Ég sá mitt nýjasta andlit. Innan í mér eru mörg andlit og ég ber þau með mér eins og tré árhringi sína. Börnin mín sjá eitt andlit, pabbi minn sá annað andlit, vinir mínir á Íslandi sjá enn eitt andlit og þeir sem ég þekki í útlöndum sjá allt annað andlit. Samanlagt eru þessi andlit öll ég. Þegar ég horfi nú spegilinn – hann er þakinn hitamóðu eftir sturtuna – sé mitt nýjasta andlit, ekkert mustache lengur.

ps. Ég las ágætt viðtal við Halldór Guðmundsson, stjórnarformann Forlagsins á Rúv-vefnum þar sem hann segir frá þeirri byltingu sem hafi orðið á íslenskum bókamarkaði á fáum árum. Nú er þriðjungur veltu forlaganna að þakka sölu hljóðbóka (streymi) en var árið 2018 örfá prósentustig, segir Halldór. Og hann nefnir líka í viðtalinu að íslensk forlög hefðu sofið á vaktinni,  – „útgefendur áttuðu sig alls ekki á hvað var að gerast“ – verið lengi í gang að hefja framleiðslu á hljóðbókum, bjóða lesendum að hlusta í stað þess að lesa af bók og verið almennt treg í taumi þegar nýjungar hafa verið kynntar á bókamarkaðinum.

Mér þótti athyglisvert að stjórnarformaðurinn hefði komist að þessari niðurstöðu nú í árslok 2021 (kannski var hann búinn að sjá þetta löngu fyrr og sennilega löngu áður en söluferli Forlagsins til Storytel hófst.)  Í byrjun júlí árið 2020 þegar Storytel keypti 70% í Forlaginu skrifaði ég í dagbókina mína (Kaktusinn) nokkur orð um hvaða þýðingu þau kaup hefðu mögulega á íslenskan bókamarkað. Ég minntist víst þar á að Forlaginu vantaði vítamín og keyrði með handbremsu þegar að hljóðbókum og öðrum nýjungum kæmi. Nákvæmlega sama niðurstaða og stjórnarformaðurinn fær nú einu og hálfu ári síðar. Þessi skrif mín í júlí 2020  fóru ekki framhjá innvígðu Forlagsfólki og vöktu þau enga sérstaka gleði. Ég hef þurft að heyra það æ síðan að ég hafi verið neikvæður út í Forlagið (útgáfan sem gefur út bækurnar mínar) og verið með stæla. Ég fékk meira að segja undarlega kaldar kveðjur frá Súsönnu Svavarsdóttur (sem ég hvorki þekki, hef hitt né hef sérstakan áhuga á að kynnast), í gegnum einn af starfsmönnum Forlagsins.  Ég held að menn hljóti að draga þá ályktun nú, að öll íslensk forlög, og líka stóra Forlagið, þurfi að vera opin fyrir nýjum möguleikum, nýjum leikreglum, nýjum vinnubrögðum og festa sig ekki sínu gamla, djúpa spori sem virðist vera svo erfitt að komast upp úr. Það er allt á suðupunkti víða á útlenskum bókamarkaði, rífandi fjör. Er ekki Ísland land tækifæranna, land bjartsýni og land með ofurtrú á hina glöðu brautryðjendur, yo!

pps. Í dag er 10. desember árið 2021 og ég spái að áður en sá 10. desember 2022 renni upp, hafi  önnur bylting rústað íslenskum bókamarkaði. Þetta segi ég eins og völva.

ppps Ég tók járnbrautarlestina til Hellerup í dag og þaðan áfram (S-tog) til Kaupmannahafnar til að fá bóluefninu Pfizer sprautað í þriðja sinn inn í gildan og vöðvamikinn upphandlegg minn.

 

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.