Hvernig fór bókahönnuðurinn að þessu?

Eins neyðarlegt og það nú er fyrir mann á mínum aldri, þá stóð ég sjálfan mig að því að lesa Fréttablaðið í dag með það eina markmið að finna hvort kominn væri ritdómur í blaðinu um bók eftir sjálfan mig. Illa er komið fyrir mér, hugsaði ég og glotti. Mér varð hugsað til annars manns, rithöfundar, sem sagði einu sinni að hann læsi bara dagblöðin til að sjá hvort skrifað væri um hann í blaði dagsins. Sjálfhverfni hefur mér aldrei þótt annað en löstur og ósjarmerandi persónueiginleiki.

En ég er víst ekki alveg svo langt leiddur að lesa blöðin til að skoða sjálfan mig. En ég mundi þegar ég var að fletta Fréttablaðinu í morgun að mér hafði verið bent á  grein á vefmiðlinum visir.is. Þar skrifar Hermann Stefánsson um bók bókmenntaprófessorsins Guðna Elíssonar. Sú skoðun hefur víst verið áberandi að ein af aðalpersóna bók Guðna byggi á Hermanni Stefánssyni og að sú mynd sem er dregin upp af Hermanni sé víst bæði napurleg og  sérlega ófalleg. En grein Hermanns þótti mér ansi góð. Vel skrifuð og hressileg. Ég hef ekki lesið bók Guðna svo ég veit ekki svo margt um  lykilpersónur bókar hans sem eiga víst að byggja á fólki úr bókmenntakreðsum Íslands. Guðni hefur talað um byggingu bókarinnar í mörgum viðtölum og hann hefur verið einna stoltastur að honum hafi tekist að láta tvær af aðalpersónum bókarinnar hittast akkúrat í miðri bók, það er að segja á blaðsíðu 400 í prentgripnum sem er víst 800 síður. Ég veit ekki hvort mér þyki áhugavert að lesa 800 síðna bók vegna þess að höfundi tekst snilldarlega að láta aðalpersónur hittast á blaðsíðu 400. Kannski var það bara umbrotsmanninum að þakka að það heppnaðist?

En þegar ég var að leita að grein Hermanns fann ég aðra grein sem vakti athygli mína. Það var einskonar ritdeila, eða frekar karp á milli Guðmundar Andra Thorssonar, núverandi starfsmanns Forlagsins og fyrrum þingmanns, og skáldsins Braga Páls sem hefur skrifað bók sem heitir því geðfellda nafni Arnaldur Indriðason deyr. Guðmundur Andri er óánægður með hugmynd Braga Páls að drepa Arnald Indriðason í skálduðum texta og Bragi Páll er óánægður með Guðmund Andra að hann skuli vera óánægður með titil og hugmynd að bók sem hann hafi ekki lesið. Mér þótti þessi grein eða karp mannanna tveggja aftur á móti ansi leiðinlegt og óáhugavert. Guðmundur Andri má þó eiga það að hann útskýrir mál sitt af mikilli ritfimi.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.