Matsmaðurinn leggur ekki fram mat

Það virðist helst fréttnæmt af íslenskum bókamarkaði að menn deila. Og deiluefnin eru til dæmis heimskulegir bókatitlar, heimskulegar og ógeðfelldar persónur sem byggja á eða byggja ekki á kjallaraíbúa í Þingholtunum og  hver stelur frá hverjum, hinn frumlegi eða hinn ófrumlegi.  Bergsveinn Birgisson er með sverð á lofti á tveimur vígstöðvum í einu, ekki til að verja nýju bókina, Kolbeinsey heldur eldri bækur. Ég held með Bergsveini og er viss um að hann hafi rétt fyrir sér. Greinagerð hans  í deilunni við bankastjórann var gáfuleg og sannfærandi en svör bankastjórans minna sannfærandi, jafnvel ósannfærandi. En ekki vildi ég standa í svona deilum.

En hvað um það. Ég hlustaði á Víðsjá um daginn. Ég sakna auðvitað raddar Eiríks Guðmundssonar í útvarpinu en ég læt mig hafa það að hann sé fjarri í bili, hlakka bara til að hann komi aftur. Ég hafði nefnilega verið dálítið spenntur að hlutsta á Víðsjá því ég vissi að ritdómur um Kolbeinsey var boðaður. Ég hlakkaði til að hlusta á Gauta Kristmannsson fjalla um bók Bergsveins. Gauti hefur um árabil verið ritdómari hjá Víðsjá og það er auðheyrilegt á máli hans að hann er vel að sér í bókmenntum, víðlesinn og fróður, og hann vandar sig þegar hann fjallar um bækur í Víðsjá. Á hlaupunum í gær (6,23 km) hlustaði ég á umfjöllum Gauta um Kolbeinsey. Gauti greindi hvers kyns bókmenntaform Bergsveinn velur fyrir viðfangsefni sitt í Kolbeinsey, hverjir hafa áður reynt fyrir sér að skrifa í sömu hefð og Bergsveinn, hann greinir umfjöllunarefni bókarinnar og hverju Bergsveinn reynir að koma á framfæri til lesenda með bók sinni. Ég beið eiginlega eftir  – eða vonaði – að Gauti klikkti út með að segja hvað honum þætti um bókina. Hvernig honum fyndist Bergsveini takast til með það sem hann ætlaði sér. Slíkt mat kom ekki, í sjálfu sér enginn dómur um bókina þótt dagskrárliðurinn heiti ritdómur, nema ég misskilji eitthvað. En svona eru ritdómar Gauta; frekar lýsing á bók en mat á bók.

Á íslenskum fjölmiðlamarkaði eru orðnir ansi fáir ritdómarar og ansi fáir ritdómarar sem hafa getu, þekkingu og hæfni til að fjalla um bókmenntir sem listform og leggja fram vitrænt mat á útgefnar bækur. Gauti er einn af fáum slíkum. Því finnst mér það hálf leitt að hann reyni ekki að leggja mat sitt á bókmenntirnar (auðvitað út frá sínum forsendum) í stað þess að láta sér nægja að greina bækurnar.

Ég man þegar ég var forleggjari á Íslandi (og það er nokkuð orðið langt síðan) og hlustaði á Gauta í Viðsjá fjalla um einhverjar af þeim bókum sem ég gaf út og vonaði auðvitað að ég gæti notað  gullmola frá gagnrýnandanum til að lyfta þeim upp, til dæmis í auglýsingum; með því að vitna í bókmenntagagnrýnandann til að styðja mál mitt að þessa ákveðna bók stæði undir öllum þeim dásemdarorðum sem kom frá sjálfu forlaginu. En það gerðist aldrei. Einhver sagði mér að Gauti hefði það í huga þegar hann semdi bókaumfjöllun sína fyrir Víðsjá, að koma í veg fyrir að útgefendur gætu nýtt sér pistil hans til að selja bækur. Ég veit ekki hvort það sé rétt en ég held að ég hafi að minnsta kosti aldrei fundið nothæfan gullmola eða nothæft hrós úr munni Gauta til að peppa mínar bækur upp.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.