Póstkort frá Alsír.

Í gær fékk ég skemmtilegt bréf frá ágætum manni búsettum í Reykjavík. (Mér hafa borist ábendingar um að fólk, eða lesendur Kaktuss, trúi ekki að ég fái bréf, að ég skáldi bréfin í einhverjum tilgangi. En það er nú bara alveg satt að ég fæ bréf; meira að segja nokkur í hverjum mánuði.) Í bréfinu sem mér barst í gær segir bréfritari  meðal annars: „Ég veit ekki hvort þú áttir þig á þarna í fjarskanum hversu lítill vor aumi drullupollur er … Ætli það sé ekki bara gott að vera í Danmörku.“ Þetta segir bréfritari vegna þess hve honum þykir hið íslenska bókmenntasamfélag lítið: ritdómarar og bókmenntaverðlaunadómarar eru óhjákvæmilegar tengdir (illa eða vel) við þá sem skrifa bækur á Íslandi.

En ég velti slíku ekki svo mikið fyrir mér heldur fór ég hugsa um hvort ég ætti að hrósa happi yfir að vera búsettur í Danmörku, fjarri þessum „litla drullupolli“ sem bréfritari telur íslenskt bókmenntasamfélag vera. Ég komst svo sem ekki að neinni niðurstöðu nema að það hefur bæði sína kosti og sína galla að vera í útlegð í útlöndum; ég hef frið en ég sakna margra sem búa á Íslandi.

Bréfritari nefndi líka að hann langaði mjög mikið að lesa bók Bergsveins Birgissonar, Kolbeinsey „Ég hef heyrt að Kolbeinsey sé einhver albesta bók ársins og hlakka til. En er þetta ekki fremur neikvæður dómur hjá Gauta?“ Þarna er vísað í ritdóm Gauta Kristmannssonar í Víðsjá. Í morgun fékk ég svo tölvupóst þar sem mér var bent á að Gauti væri albesti ritdómari landsins og hans aðferð við að gagnrýna bækur sé alveg hárrétt: „í lokin hefur maður nokkuð skýra sýn á bókina, veröld hennar, aðferð höfundar osfrv; það er það sem ritdómur á að gera.“ En í huga þessa manns var mat Gauta jákvætt og „greinilegt að hann er ágætlega sáttur við bókina.“

Ég held mig bara við það sem ég sagði í gær að ég vildi að Gauti væri skýr í mati sínu; segði greinilega og skorinort hvernig honum þyki höfundi takast upp með bókaskrif sín. Því það tel ég hlutverk ritdómara eigi líka að vera.

ps. En ég hljóp  (6,87 km) rétt eftir sólarupprás í morgun í einstaklega fallegu veðri; bjart og lygnt. Það var gaman.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.