Að búa til rafmagn

„Æ, eigum við ekki að reyna að gera eitthvað með þessi endalausu hlaup okkar?“
Ég horfði á grámyglulegan hlaupara í þrjátíu ára gömlum æfingagalla sem virkaði jafnvel enn þreyttari en hlauparinn sjálfur sem þó var að niðurlotum komin eftir að hafa lagt margar mílur að baki. Ég hafði líka hlaupið langt. En ég var í mínum eigin heimi, hljóp eftir gangstéttinni án þess að taka eftir einu né neinu. Ég bara hljóp. Himinninn var yfir mér, sjórinn á hægri hönd og Strandvejen undir. En allt þetta fór framhjá mér. Ég tók því  ekki eftir þessum sveitta kunningja mínum sem hafði komið hlaupandi móður og másandi á móti mér. Þegar við mættumst hljóp ég bara áfram, án þess að heilsa eða hinkra, en maðurinn kippti í handlegginn á mér svo ég stoppaði. Og þetta var það fyrsta sem hann sagði: „Æ, eigum við ekki að reyna að gera eitthvað með þessi endalausu hlaup okkar?“

Ég vissi svo sem ekki hverju ég átti að svara manninum. Ég var lengi á leiðinni úr hugsanadjúpunum en það var auðvitað rétt athugað hjá honum að ég hleyp og hleyp og það kemur svo ekki annað út úr því en að þeir kílómetrar sem ég legg að baki  verða fleiri og fleiri (meira en 1500 km árið 2021), botninn á hlaupaskónum verður æ þynnri og gögnin sem Garmin hefur um hjartslátt minn og hlaupaþol safnast upp í gagnaveri þeirra á Vaðlaheiði.

„Hvað viltu gera með hlaupin okkar?“ spurði ég gráa manninn en var svo sem ekki vongóður um að hann hefði gagnlegt svar við spurningunni. Ef hann gæti bent mér á leið til að búa til rafmagn úr allri þeirri orku sem ég nota í hlaupin hefði ég verið ánægður. Ég gæti auðvitað spurt sömu spurningar um svo margt sem ég tek mér fyrir hendur. Æ, hvað á ég að gera við mín endalausu skrif? Get ég búið til rafmagn úr þeim?

Ég svaraði manninum kurteislega og spurði hvort hann hefði einhverja lausn á þessum tilvistarvanda. Hvort hann vissi hvað maður gæti gert við öll hlaupin. Hann horfði hissa á mig og sagði: „Nei, ég var bara að hugsa hvort við ættum ekki að skrá okkur í keppni. Taka þátt í maraþonhlaupi til dæmis í Berlín.“
„Maraþon hlaup?“ sagði ég. Því ég hef ákveðið að hlaupa aldrei maraþonhlaup.
„Já, þú veist að hlaupa 42 km. Við gætum gert skemmtiferð úr því. Farið til Berlínar, eða Athenu?“

ps. Það er ekki alveg rétt að allt hafi farið framhjá mér í langhlaupi dagsins því ég hlustaði á Víðsjárþátt. Í þættinum var meðal annars rætt við skáldkonuna Þórdísi Helgadóttur um ljóðabók hennar Tanntöku. Mikið þótti mér gaman að heyra hana tala, hún verkaði á mig sem geðug og greind kona. Og  gaman væri að búa til rafmagn úr því sem hún hefur að segja.

pps Myndin hér að ofan er tekin þegar nákvæmlega 5,3 km voru að baki í hlaupatúr dagsins og þústin fremst á myndinni er rafmangstúrbína fyrir hlaupara. Vélin var smíðuð árið 1967 þegar mikill orkuskortur herjaði hér á Norður-Sjálandi

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.