Konan á fjórum fótum.

Einu sinni, fyrir um það bil þremur árum, mætti ég í jóga alla föstudagsmorgna. Jógaiðkun átti ekki við mig en ég gerði mitt besta, sætti mig við mínar líkamlegu takmarkanir (ég er stirður) og reyndi að tileinka mér þá trú sem jógakennarinn boðaði að með jógaástundun næðist jafnvægi bæði í sál og á líkama. En mér þótti tímarnir leiðinlegir og mér fannst þessi klukkutíma jógaþjáning á föstudagsmorgnum vara heila eilífð. Mér varð því satt að segja létt þegar jógakennarinn – mjög væn kona – tilkynnti að hún hefði fengið aðra vinnu svo hún yrði að hætta jógakennslu á föstudagsmorgnum. Eftir tveggja ára ástundun hafði mér, eftir allt saman, farið örlítið fram í jógalistinni.

Ég segi frá þessu hér því ég hitti í gær fyrrum samnemanda minn frá jógaföstudögunum. Við þekkjumst ekki mjög vel en við stöldruðum við til að heilsast þegar við rekumst hvort á annað. Í gær fitjaði hún strax upp á samtalsefninu: sameiginleg reynsla okkar frá jóganámskeiðinu. Þessi samnemandi minn er í góðum holdum og vegna allra aukakílóanna voru jógaæfingarnar henni enn erfiðari og þeim fylgdu oft miklar áreynslustunur man ég.

„Mér fannst alltaf þægilegast að vera í hundinum,“ sagði þessi góða kona við mig í gær. „Það var notalegasta stellingin.“ Í hundinum er maður á fjórum fótum. „Einu sinni sagði jógakennarinn (hún nefndi nafnið) okkur að koma okkur fyrir í þeirri stellingu sem okkur þætti þægilegust að vera í og ég fór niður á fjóra fætur, eins og hundur. Allir hinir settust í lótusstellingu, í einskonar íhugunarstellingu með hjartað galopið fyrir Guði og lófana eins og móttökudiska fyrir þá krafta sem kæmu að ofan. En ég var á fjórum fótum og vonaði bara að einhver kæmi og klappaði mér og knúsaði. Ég man að kennarinn gekk á milli okkar – það var einbeiting og þögn í salnum – og þegar hún kom til mín lagðist hún á hnén við hliðina á mér og hvíslaði í eyra mér: – Ég held að þú þurfir að breyta einhverju í lífi þínu.“

Ég varð svo hissa á þessari sögu, kannski svo hissa að ég sagði örugglega mjög fátt en hugsaði þess meira (ég hef þennan veikleika að halda að ég segi eitthvað en stend bara og hugsa). Við kvöddumst með virktum eftir samtalið. En sagan um jógatímana vék ekki úr huga mér. Í gær þegar ég var að elda eða búa til mat varð mér aftur og aftur  hugsað til þessa jógasamnemanda míns. Líka þegar ég vaknaði í morgun – allur sveittur eftir óróasama nótt – var þessi mynd enn í huga mér: Konan á fjórum fótum og kennarinn á hnjánum við hlið hennar að hvísla í eyru hennar.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.