Vitni að dýrslegri nautn.

Hér í Danmörku er kórónaveiran enn og aftur búin að ná tökum á samfélaginu. Hér er allt frekar lokað og fólk heldur sig heima. Ég hitti varla sálu. Þegar ég skrifa hér og lýsi stöðunni gæti maður haldið að ég lifði eymdartilveru – aleinn og einangraður. Svo er þó ekki. Í morgun fór ég eins og svo oft áður út að hlaupa. Ég hafði ekki hlaupið langt þegar ég mætti manni – hann gengur líka með hund – sem ég rekst stundum á þegar ég hleyp. Hann virtist vera ákaflega hrifinn af því hve mikið ég hleyp  því hann rak hnefann á loft þegar hann kom auga á mig og hrópaði upp yfir sig: „Yessss, god tur.“

Þetta eru nú þau samskipti sem ég hef átt  við fólk í dag og klukkan er orðin 13:30. Við Davíð erum einir heima en hann var bara að vakna og hefur ekki náð að segja annað en: „God morgen, pabb.“

Á hlaupunum í morgun hlustaði ég enn einu sinni á Víðsjá. Ég geri töluvert af því þessa dagana og ekki mikil tilbreytni í því sem ég tek mér fyrir hendur. Mér þykir ágætt að nýta hlaupatímann til að hlusta á hjal um íslenska menningu. Að vísu rambaði ég á að hlusta á þátt frá því fyrr í vikunni eða síðustu viku; sem sagt gamlan þátt. En það skipti mig ekki svo miklu máli, ég er ánægður með þau Guðna og Höllu. Í þessum þætti fjallaði nýr (ég held að hún hafi bara byrjað í haust) gagnrýnandi Víðsjár, Gréta Einarsdóttir, um bók Eiríks Arnar Norðdahl, Einlægur Önd. Sú bók hafði af einhverjum ástæðum ekki enn ratað á listann yfir bækur sem ég ætlaði að lesa en eftir að hafa hlustað á gagnrýni Grétu langaði mig svolítið að fletta í gegnum bókina. Ekki vegna þess að Gréta flutti lofræðu, það er nú ekki hægt að segja, heldur varð ég forvitinn að sjá  hvernig Eiríkur Örn Norðdahl skrifar um slaufunarmenningu og baráttu sjálfhverfs rithöfundar – sem gjarnan vill láta lofið og frægðarljósin baða sig bæði í raunheimum og á sviði félagsmiðlana –  að halda haus þegar hann þarf að sitja undir öflugu og kannski óréttlátu skítkasti.

ps. Ég hef oft tekið eftir konu sem situr alltaf á sama bekk í litlum almenningsgarði hér í bænum – spottakorn frá húsinu mínu. Þótt í garðinum séu bæði leiktæki fyrir börn og tvö lítil fótboltamörk er aldrei neinn að leik inni í þessum notalega garði. Á trébekkjunum þremur sem þar eru hef ég í öll þau ár sem ég hef búið hér ekki séð neinn tylla sér þar nema þessa konu. Og hún virðist koma á hverjum degi og alltaf um þrjúleitið. Hún klæðist ávallt sérlega stuttu pilsi, og pilsið er ekki bara stutt heldur velur hún þessi stuttu pils í glannalegum, skærum litum; appelsínugul, sólgul, fjólublá, neongræn …

Þótt ég hafi tekið efir konunni á bekknum í öll þessi ár hef ég ekki velt henni svo mikið fyrir mér. Ég hef rekið augun í að hún gæðir sér oft á einskonar brauðbollu eða samloku eða einhverju slíku á meðan hún dvelur í garðinum. En í gær þegar ég var í bakaríinu – ég ætlaði að  kaupa krembollu fyrir Davíð –  kom konan í stutta pilsinu inn.  Ég flýtti mér að stíga til hliðar og þykjast vera að skoða kökuúrvalið á meðan hún átti viðskipti við afgreiðslustúlkuna. Í mínum huga hafði konan alltaf verið ung því úr fjarlægð virtist hún varla meira en þrjátíu ára. Hún gekk alltaf í þessu táningapilsi og var með sítt, svart hár sem flaut niður bak hennar.

En þegar ég sá hana í fyrsta skipti í návígi áttaði ég mig á að hún var alls ekki ung, hreint ekki. Síða hárið sem virtist úr fjarlægð vera svo ungdómlegt var bæði þurrt og glanslaust og andlitshúðin sem úr fjarska leit út fyrir að vera slétt og geislandi var mött og hrukkótt. Aldur konunnar kom mér töluvert á óvart og vakti satt að segja áhuga minn á konunni. Í undrun minni fylgdist ég með henni sinna viðskiptum sínum og þegar hún hafði fengið afhenta nokkuð volduga kókosbollu í lítilli öskju  gekk hún út. Akkúrat á  þessu augnabliki fékk ég hugmynd, hreina skyndihugdettu án úthugsaðrar áætlunar. Ég ákvað að elta konuna, laumast á eftir henni þótt ég vissi ekki einu sinni að hverju ég vildi komast.

Ég hélt mig í ákveðinni fjarlægð og gekk í humátt á eftir konunni sem strunsaði áfram með þeirri ákveðni sem einkennir þá sem vita hvert þeir ætla. Konan stefndi rakleittað að litla almenningsgarðinum og eftir stutta göngu vorum við komin á áfangastað.  Hún gekk hiklaust að bekknum fjærst innganginum. Þar settist hún á miðjan bekkinn og tók kókosbolluna upp úr fínu bakarísöskjunni. Hún beit varlega í kókosbolluna og hélt lófa vinstri handar undir bollunni til að koma í veg fyrir að súkkulaðibrot eða kóksmjöl félli í kjöltu hennar og á litríka pilsið (appelsínugult). Ég ákvað að ganga inn í garðinn og fékk mér líka sæti á bekk þannig að ég gat auðveldlega laumast til að fylgdist með konunni. Hún veitti mér enga athygli. Hún borðaði kókosbolluna af nokkurri áfergju og minnti mig svolítið á köttinn minn þegar hann fær að borða eftir að hafa verið of lengi úti. Eins og kötturinn stakk hún  einhvern veginn öllu höfðinu niður í matinn og reisti sig síðan upp á meðan hún tuggði bolluna. Hún sleikti ákaflega út um til að hreinsa varir og munnvik af hvíta bollukreminu.

Þegar konan hafði klárað síðdegissætindi sín reis ég á fætur og gekk út úr garðinum. Ég vildi ekki vekja athygli á mér og ég gekk því rólega heim á leið með kókosbolluna hans Davíðs. Kötturinn minn tók á móti mér þegar ég kom inn úr dyrunum og vildi augljóslega líka fá eitthvað að borða.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.