„Er það mælikvarði á góða bók hvort hún hafi fræðslugildi?“

Ég las í morgun nokkuð góða grein í Lestrarklefanum um tilnefningar til hinna Íslensku bókmenntaverðlauna. Greinarhöfundur heitir Ragnhildur ( veit ég ekki meira um hana, ekki er getið hverra dóttir hún er). Ragnhildur fjallar um Hin íslensku bókmenntaverðlaun og sérstaklega verðlaunaflokk sem kallast barna- og unglingabækur. Þetta er nokkuð harðorð grein, ekki ósanngjörn, um  tilnefningar, sérstaklega á einni bók og það sem henni finnst hörmuleg vinnubrögð dómnefndar í flokki barnabókmennta.

Í mörg ár hef ég verið áhugamaður um framgang Íslensku bókmenntaverðlaunanna. Mér hefur þótt mikilvægt að verðlauna þá höfunda sem hefur tekist með dugnaði sínum og listfengi að skrifa framúrskarandi bókmenntaverk. Mér hefur líka þótt mikilvægt að vekja með verðlaununum athygli á bókum sem skara framúr hvað varðar listrænt gildi. En ég hef horft á – mér til sárrar armæðu – hvernig verðlaununum hefur hnignað með hverju ári. Fréttir um tilnefningar  þykja til dæmis  ekki lengur hafa neitt sérstakt fréttagildi – umfjöllun um þau fær jafnvel minna pláss og athygli en leikur Selfoss og ÍBV í íslensku handboltadeildinni. Á sama tíma hefur áhugi fjölmiðla fremur beinst að Fjöruverðlaununum – sem eru bókmenntaverðlaun sem aðeins helmingur skrifandi rithöfunda hefur aðgang að. Af athyglinni sem þau verðlaun hljóta í samanburði við Íslensku bókmenntaverlaunin getur maður ekki ályktað annað en Fjöruverðlaunin teljist mikilvægustu bókmenntaverðlaun landsins. Það má segja forsvarsmönnum Fjöruverðlaunanna til hróss að þeim tekst að setja þau á þennan háa stall.

Hin íslensku bókmenntaverðlaun eru sem sagt í ógöngum og spurningin er hvort áhuginn á þeim sé svo lítill að forsvarsmönnum verðlaunanna (FÍBÚT)  þyki taka því að endurreisa þau og hefja þau upp til vegs og virðingar. Það er líka orðið afar óljóst (og kannski hefur það aldrei verið ljóst) hvaða mælikvarða dómnefnd á að beita þegar bækur eru tilnefndar. Er listrænt og bókmenntalegt gildi í hávegum haft? Eða eru það vinsældir rithöfunda sem vegur þungt? Er það jafnvel þykkt bóka sem skiptir veigamiklu máli? Hvaða máli skiptir  myndskreyting í barnabókum, hvernig er lagt mat á listrænt gildi texta barnabóka eða eiga barnabækur fyrst og fremst að hafa fræðslugildi? Kannski ættu menn að gera upp við sig hvort þetta sé leikmannaverðlaun eða verðlaun veitt af fagfólki. Á dómnefndin að vera skipuð „lesendum“, fólki sem finnst gaman að lesa eða á að setja mælikvarða á hverjir teljist hæfir að meta listræn gæði bókmennta. þ.e. fólk sem hefur innsýn og yfirsýn á bókmenntir?

Ég er alveg sammála Ragnhildi sem segir í grein sinni „Ef litið er á tilnefningar í barna- og ungmennaflokki í heild sinni, þá vekur það athygli mína að allar bækurnar mætti á einhvern hátt kalla fræðandi.
Það er það sem ég held að hljóti að skýra tilnefningu Ferðalagsins til þessara verðlauna, þessi áhersla á tilfinningaþroska. Þrjár af hinum bókunum sem voru tilnefndar geta talist hafa fræðslugildi um fortíðina og sú fimmta „kemur inn á mörg samfélagsleg málefni,“ samkvæmt rökstuðningi dómnefndar. Nú er ég ekki að leggja neinskonar mat á hinar bækurnar fjórar, en ef þetta er rétt ágiskun hjá mér, þá finnst mér það vafasamt gildismat dómnefndar. Er það mælikvarði á góða bók hvort hún hafi fræðslugildi? Eða er það bara mælikvarði á barnabækur? Fórum við allt í einu hundrað ár aftur í tímann í viðhorfi til barnabóka?“

Ætli áhugi sé á því að búa til mikilvæg bókmenntaverðlaun í Íslandi? Ég er ekki viss. Ekki einu sinni á meðal þeirra sem hafa innilegan áhuga á bókmenntum og framgangi þeirra á Íslandi.

 

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.