Á myndinni eru þrjár bækur og mér áskotnuðust þær allar þrjár á einum og sama deginum; þriðjudeginum 21. des.. Svo heppilega vildi til að ég hafði einmitt látið mig dreyma um að eignast, eða að minnsta kosti eiga kost á að lesa nákvæmlega þessar bækur. Kolbeinsey eftir Bergsvein, Hitinn á vaxmyndasafninu eftir Ísak Harðarson og bók JK Rowling um Jólasvínið. Í gær hitti ég Palla á Café Vest. Við höfðum mælt okkur mót í hádeginu til að við gætum séð andlitið hvor á öðrum áður en jólin kæmu. Það er ómögulegt að arka inn í hátíðardagana án þess að hafa heilsað almennilega upp á félaga sína þegar þess er kostur. Palli kom færandi hendi, ýtti til mín yfir borð veitingahússins bókum Bergsveins og Rowling en neitaði að taka við greiðslu því hann leit svo á að þetta væri greiðsla upp í væntanleg höfundarlaun. Við glottum báðir yfir þessari galgopalegu yfirlýsingu útgáfustjórans um leið og Auður Jónsdóttir, skáldskonan og skjólstæðingur Palla, hljóp íþróttamannslega fram hjá stórum vesturglugga Café Vest og var skáldkonan augljóslega á mikilli hraðferð, slíkur var asinn á henni. Jón Karl bættist síðan í hópinn því það er ekki síður mikilvægt að sjá framan í andlitið á þeim góða manni áður en jólin koma.
Á ferðum mínum um Reykjavík í gær – ég þurfti að ljúka nokkrum mikilvægum erindum – kom ég við í bókabúð Forlagsins úti á Granda til að ná mér í bók Ísaks sem mig langar svo að lesa. Þegar ég kom að kassanum til að borga fyrir bókina sagði ungi afgreiðslumaðurinn að hann vildi gefa mér afslátt á bókinni. Ekki tók ég eftir hversu hár afslátturinn var en ég greindi á raddblæ unga mannsins að um verulegar fjárhæðir væri að ræða. Ég þakkaði velviljaða kassamanninum auðvitað fyrir en vissi svo sem ekki hverju ég átti þessa óvenjulegu vinsemd að þakka. Eftir stutta þögn sagði ungi maðurinn allt í einu með alvöru í röddinni: „Þú ert höfundur, þú skalt muna að biðja um afslátt.“ Ég hafði auðvitað hvorki gert mér grein fyrir því að höfundar ættu rétt á kostakjörum né að ungur afgreiðslumaður liti á mig sem „höfund“ eins og hann kallaði mig. Þegar ég sagði Sus brosandi frá þessum viðskiptum mínum við unga manninn sagði hún glottandi að það væri þá ekki til einskis að ég hefði skrifað bækur. Og það er alveg hárrétt.
En nú sit ég hér við mitt fína langborð í Hvalfirði. Það er morgunn, ég horfi út í koldimman fjörðinn og bíð þess að nógu bjart verði á þjóðvegi 47 (Hvalfjarðarvegi) til að ég geti hlaupið í vegkantinum niður til Saurbæjarkirkju og heilsað upp á þann sem afgreiðslumaðurinn í Forlagsbúðinni mundi kannski kalla skáldbróður minn, sjálft sálmaskáldið Hallgrím. Ég ætla að sækja hann og bjóða honum að skokka með mér upp bröttu brekkuna frá kirkjunni og upp á þjóðveginn. Frá því að ég fór á fætur er búinn að dunda mér við ýmislegt; mér fannst mikilvægt að nýta biðina eftir að ljós sólarinnar lýsi fjörðinn og þjóðveginn nægilega upp svo óhætt sé að hlaupa í vegarkantinum. Sennilega verður biðin eftir birtu löng á stysta degi ársins. Fjörðurinn og Botnssúlurnar eru enn á kafi í myrkrinu fyrir utan gluggann. Ég hef setið nokkuð lengi og enn örlar ekki á dagsbirtu. Kolbeinsey Bergsveins hefur stytt mér stundir í biðinni: „Ég vildi bara að hún væri hamingjusöm, svona eins og fólk er inni í húsunum sínum.“