Í gær var haldið jólahlaup Kaktussins í Hvalfirði, sem er 5 km hlaup eftir þjóðvegi 47. Ég var eini þátttakandinn og varð bæði fyrstur og síðastur. Tíminn 24:41 min. Hlaupið hefði ekki þótt fréttnæmt hér á Kaktus nema vegna þess að ég varð fyrir hálfgerðri uppljómun á hlaupunum.
Fyrir einhverja rælni valdi ég að hlusta á útvarpsþátt sem fyrst var fluttur í ágúst 2020 á meðan ég brunaði eftir veginum. Samtal Ævars Kjartanssonar við Guðrúnu Pétursdóttur sem mér heyrðist vera forstöðumaður Sæmundarstofu hjá Háskólanum eða eitthvað slíkt. En það skiptir akkúrat engu máli hvaða titil konan ber. Ég var snortinn af þessu samtali því í ljós kom að Guðrún Pétursdóttir er ekki bara forstöðumaður heldur verkaði hún á mig bæði sem góð og gáfuð kona. Að þættinum loknum og að lokinni þátttöku minni í jólahlaupinu hugsaði ég með mér. Þvílík gæfa að Ísland eigi slíkt fólki eins og Ævar og Guðrúnu. Þvílík gæfa að þjóðin á þess kost að hlusta á þetta stórfína útvarpsefni á RÚV 1. Ég var svo æstur yfir þessu að ég ákvað að skrifa strax til Guðrúnar. Að þakka henni væri það minnsta sem ég gæti gert. Ég stoppaði á miðjum þjóðveginum, greip símann minn og fann facebook-síðu Guðrúnar og tókst að skrifa til hennar skjálfandi af hugaræsingi.
„Kæra Guðrún.
Ég var að hlusta á útvarpssamtal
þitt við Ævar Kjartansson sem var útvarpað fyrst í ágúst 2020.
En með nýrri tækni (hlaðvarp) var ég svo heppinn að heyra samtalið
í morgun á hlaupum mínum með heyrnartól á þjóðvegi 47, Hvalfjarðarvegi.
Ég var eiginlega djúpt snortinn yfir frásögnum þínum og sýn þinni á lífið.
Mér þótti þetta svo upplífgandi og í hæsta máta gleðilegt að heyra að Ísland
á svona gott og viturt fólk til að tala í útvarp.
Ég vildi bara þakka þér kærlega fyrir framlag þitt
og óska þér og þínu fólki gleðilegra jóla.“
Mér varð litið upp. Sólinni sem enn var bak við fjöllin hafði tekist að lýsa upp himinninn. Þetta var himneskt ljós. Svo sendi ég skilaboðin. Jafnskjótt og skilboðin voru flogin af stað í gegnum loftið varð ég hálfvandræðalegur yfir æsingi mínum og … hvað var ég eiginlega að skrifa til ókunnugs fólks? En það eru jól.
Í dag er frost í Hvalfirðinum og þegar ég horfi út um gluggann sé ég að tjörnin við húsið er bæði vatnslítil og botnfrosin. Samt minnir hún, tjörnin, mig alltaf á málverk eftir Kjarval.