Hin aldna skáldkona og boðskapur hins blíðlynda páfi

Myndin hér að ofan sýnir náttborðið mitt. Myndin er tekin í morgun og sýnir að bók Bergsveins Birgissonar Kolbeinsey er sú sem er lesin nú. Ég er að verða búinn með bókina. Bækurnar undir og við hlið bók Bergsveins, eru bækur hinnar frönsku Annie Ernaux sem er ein stærsta uppgötvun hins danska bókamarkaðar í ár. Bækur Annie hafa sópa til sín stjörnum og hjörtum gagnrýnenda og hver greinin á fætur annarri hafa birst í dagblöðum og tímaritum til að hylla hinn aldna, franska rithöfund. Þessi skrif hafa auðvitað vakið forvitni mína og orðið til þess að ég hef keypt þrjár af bókum hennar sem nú bíða þess að verða lesnar.

Annars var ég að ergja mig í nótt á því að ég hefði ekki, skipulega og markvisst, ákveðið að gefa öllum sem ég þekki bók í jólagjöf. Ég hefði auðvitað átt að gera það sem mitt framlag til að auðga og lyfta anda þjóðarinnar. Ég hef að sjálfsögðu gefið bækur í jólagjöf en ég hefði átt að skipuleggja mun víðtækari bókagjafir. Ég ætla að muna það fyrir næstu jól. Hitt atriðið sem sótti á mig í nótt, þegar ég vaknaði til að taka stöðuna á heiminum, var ávarp hins blíðlynda páfa til heimsbyggðarinnar þar sem hann hvetur mennina (sem sagt allar manneskjur, karla og konur) að sýna auðmýkt hvert gagnvart öðru og þar að auki biður hann fólk um að hætta að kvarta og hætta að telja skrefin sín (í óeiginlegri merkingu). Mikið er ég ánægður með þennan boðskap páfa og ætla að taka hann til mín.

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.