Í gær áttum við erindi til Akraness. Bæði þurftum við að fara í veirupróf (til að komast til baka til Danmerkur), kaupa í matinn og ljúka erindum í íslenskum banka. Þar að auki langaði okkur að sjá hvort enn væri starfandi kvikmyndahús á Akranesi. Ég sá á netinu að til var eitthvað sem hét Bíóhöllin en það var mér gersamlega ómögulegt að komast að því hvort enn væru sýndar kvikmyndir í þessari miklu bíóhöll. Heimasíða kvikmyndahússins beindi mér inn á facebook síðu sína. Þar virtist vera líf því síðasta færsla þar inni var einungis 6 klukkustunda gömul (ef facebook lýgur ekki). En ekkert var þar sagt um starfsemi Bíóhallarinnar heldur vísað á kvikmyndir.is. Þegar ég fletti upp á kvikmyndir.is var ekki minnst einu orði á Bíóhöllina á Akranesi. Mitt ráð var því að mæta í eigin persónu til Bíóhallarinnar og reyna að ná tali af einhverjum sem kunnugur væri starfsemi hússins og spyrja hvort enn væru kvikmyndasýningar í húsinu og ef svo væri hvort hægt væri að sjá Spider-man (ósk Davíðs). Í stuttu máli komum við að lokuðum dyrum hjá Bíóhöllinni og ekkert sem gaf til kynna að kvikmyndir væru enn sýndar í byggingunni en augljóst var að þar voru seldir gosdrykkir því inn um gluggann blasti við stór kæliskápur fullur af svalandi drykkjum.
Ég átti líka erindi í bókabúðina því ég hafði heyrt, eða ég taldi mig að minnsta kosti hafa heyrt, margt gott sagt um bókina Óskilamuni eftir Evu Rún Snorradóttur. Ég hef einlægan áhuga á að fylgjast með því sem gerist í íslenskum bókmenntum og því keypti ég bókina skjálfandi af spenningi. Það var mikil tilhlökkun í mér að leggjast upp í sófa og sökkva mér ofan í þessa lofsungnu smásagnabók. En ég verð að segja það strax að bókin Óskilamunir höfðaði ekki til mín á sama hátt og hún virðist hafa heillað marga aðra. (Mbl. valdi bókina skáldverk ársins.) Málkennd mín og Evu er ekki sú sama. Sá hugmyndaheimur sem hún lýsir vekur ekki áhuga minn og heldur ekki val hennar á umfjöllunarefni. Strax á fyrstu blaðsíðunum rakst ég á allmargar setningar sem stungu í augun – það er að segja mín augu – því mér fannst þær klunnalegar og hugsunin óskýr:
„Þessi kona reis inn í líf mitt eins og erfðabreytt sól. Útfjólublár ljóminn af mögulegum samskiptum við hana skyggir nú á allt annað.“ (Að segja að ljómi skyggi á eitthvað finnst mér skrýtið) … Eins á ég erfitt með að skilja eða samsama mig þeim tilfinningum sem er lýst og þeim aðferðum sem notaðar eru til að lýsa þeim. Ég birti tvö dæmi:
„Ný sjálfsmynd er mikið djúpsævisuppbrot, fersk og máttug orka en samt þessi gjá eins og í flutningum, allt þitt er framandi og ekkert á sínum stað.“
„Einhverjar fíntaugar líkamans upplifa að ég sé komin heim, ég verð heltekin af söknuði til þeirra, þótt þær séu hér og mig langar til þess að segja þeim snöktandi að ég hafi aldrei verið jafn frjáls í sjálfri mér en á sama tíma viti ekkert hvar ég standi, þekki ekki merkinguna sem var að hellast yfir mig.“ (Ég sé ekki alveg fyrir mér hvernig merking hellist yfir einhvern. Ég skil að tilfinningar hellist yfir mann en ekki merking. Sennilega skjátlast mér.)
Ég komst sem sagt að raun um að þessi tegund bókmennta höfðar ekki til mín. Ég gafst upp. Eftir að hafa lesið rúmlega hálfa bók, með vaxandi óþoli, ákvað ég að setja bókina í hillu svo aðrir með annan bókmenntasmekk – eða lengra komnir á þroskabrautinni – gætu haft gagn og gaman af bókinni.
Á morgun sný ég aftur til Danmerkur og strax þann 2. janúar hefjast störf að nýju. Ég er kominn í tímaþröng með verkefni sem ég á að skila af mér þann fyrsta mars svo ég hef ekki nema um það bil sextíu daga til stefnu. Ég bretti upp ermar þegar ég kem til Danmerkur.
ps. Ég get ekki alveg hætt að hugsa um setningar bókarinnar Óskilamunir. Þær eru mér svo framandi. Ég velti fyrir mér hvort íslenskan mín sé að verða úrelt. Ég gæti ekki skrifað svona setningu: „En þegar ég svo hélt námskeiðið, það var í litlu bæjarsamfélagi úti á landi, sama landshluta og minn gamli heimabær, hópur hafði nýlega verið sendur þangað, það virðist vera áhersla að senda hópana á staði þar sem íbúaflótti er vandi, var allt öðruvísi stemmning upp á teningnum.“