4.126 km.

Síðasti dagur ársins og dagur uppgjöra. Ég hefði alveg viljað gera lista yfir það besta, ánægjulegasta, stærsta, minnsta árið 2021 en ég hef ekki tíma til þess núna. Hingað (ég kom til Danmerkur í gær) er von á stórum hóp gesta og veisluundirbúningur er hafinn. En eitt veit ég þó, og ég get gert upp hér og nú: Ég hljóp rétt tæpa 1.300 km í ár (skv Garmin). Ég flutti mig fyrir eigin vélarafli ef svo má segja (gekk og hljóp) 3.866 km árið 2021 (það er að segja 10,6 km að meðaltali á dag). Í ljósi þessa hef ég sett mér að hlaupa 1.500 km árið 2022 og hreyfa mig  4.126 km árið 2022.

En fyrst ég er byrjaður þá langar mig að nefna fjórar bækur sem ég var sérstaklega ánægður með árið 2021:
Anna Karenína, Leo Tolstoj,
bók Judith Hermann, Hjem (á dönsku)
Klara and the Sun, Kazuo Ishiguro og
The Second Place, Rachel Kusk.
Þetta eru þær bækur sem koma fyrst í hugann.

Eins fannst mér ánægjulegt á árinu byrjaði ég að stunda nýja íþróttagrein, paddletennis. Ég hef ekki getað spilað tennis, þótt ég hafi gífurlega mikla ánægju af því. Og ástæðan er eins undarleg og það er undarlegt að spila ekki tennis, en út í þá sálma get ég ekki farið út í hér.

ps. Ég var að hlusta á góðan útvarpsþátt: samtal Ævars Kjartanssonar og  Jóns Orms Halldórssonar og þótti hann bæði fróðlegur og skemmtilegur. Í samtalinu minntist Jón Ormur á að árið í ár væri sigurár þekkingarinnar og vísindanna og árið þar sem populisminn hóf fall sitt. Mikið vona ég að það sé rétt. Ég hafði einmitt verið að hugsa um hvernig það væri ef allir þeir sem hrópuðu hæst á félagsmiðlunum, með allar sínar vinsældaaukandi skoðanir, væru fengnir til að stjórna landinu. Ef fengnir væru 63 raddir úr bergmálsklefanum til að sitja á alþingi eitt kjörtímabil. Væri það ekki gott fyrir Ísland? Ég kann ekki við að búa til ráðherralistann, ég mundi móðga fólk. En ég hef bæði kandidat fyrir forsætisráðuneyti og menntamálaráðuneyti.

pps. Myndin hér að ofan er af hinu svokallaða 6 km tré. Þetta tré, sem mér finnst svo flott,  er viðmið mitt þegar ég ætla að hlaupa 6 km.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.