Það er 11. mars 2022 og ég hef vanist tilhugsuninni. Í morgun vaknaði ég við ný hljóð; ýlið í vindinum, bank regndropanna á rúðunum og óminn í þögninni við fjörðinn. Svona hljómar Ísland klukkan sex að morgni þess 11. mars árið 2022, hugsaði ég.
Þegar ég dró gluggatjöldin frá mætti mér kolsvartur myrkraveggur. Sólin var ekki komin á fætur. Ég er einn í húsinu.
Ég bjó um rúmið; ég bý alltaf vandlega um rúmið mitt þegar ég á Íslandi. Rúmteppið er grænt og ég passa að það sé rennislétt og fellingalaust. Ofan á rúmteppið legg ég tvo púða. Mér finnst herbergið verða fallegt þegar gengið er svona nostursamlega frá og líf mitt verður betra og tilgangsríkara.
Inni í eldhúsinu hellti ég upp á kaffi, setti brauð í ristavélina og kveikti á útvarpinu. Raddirnar í hátalaranum – hikandi og óöruggar – töluðu um Úkraínu. Ég settist við borðið, drakk kaffið og borðaði brauð. Á borðið við hliðina á brauðdiskinum lagði ég bók og blaða í henni. Þetta er bók með gulri, einslitri kápu. Á baksíðunni er enginn texti, ekkert strikamerki bara stór verðmiði. 248 ,. Bókin er eftir Solvej Balle – hún hefur sjálf gefið bókina út og allt er ofureinfalt – og er ein af sex bókum í sama flokki. Ég er hrifinn af bókum Solvej Balle, eiginlega heillaður. Í flugvélinni á leið til Íslands kláraði ég eina af bókunum hennar og strax og ég lauk lestrinum sá ég eftir að hafa ekki tekið aðra bók eftir Solvej með mér eins og ég hafði ætlað. Í gær, áður en ég lagði af stað til Íslands, hafði ég bók eftir hana í höndunum en af einhverjum ástæðum ákvað ég að láta mér nægja iPadinn minn þar sem nokkrar aðrar ólesnar bækur liggja.
Ég hugsaði um höfundinn og aðferðir hennar. Hún segist hafa verið 30 ár að skrifa bókina sem ég kláraði í flugvélinni í gær. Í viðtali sagðist hún hafa þurft að eldast sjálf (eins og aðalsögupersónan) til að geta skrifað þessa bók. Þótt hún segist hafa verið þrjá áratugi að skrifa bókina hefur hún á þessum árum gefið út nokkrar aðrar bækur. En sjö ár eru liðin frá því seinasta bók hennar kom út. Það er eitthvað falslaust, ekta og tilgerðarlaust við Solvej Balle og bækur hennar. Mig langar til að læra af henni.
