Loftkastalasýningin

Ljósmyndin hér að ofan er morgunmynd tekin klukkan 07:28 þann 15. mars 2022 í Hvalfirði. Myndin sýnir bæði bekk, himin og nýfallinn snjó. Gula rákin í vinstra horni myndarinnar er blekking. Við fyrstu sýn gætu menn haldið að þarna flygi flugvél, eða farþegaþota, og skildi eftir sig gula ljósrák á himinhvolfinu af einhverjum dularfullum ástæðum. Svo er ekki. Ljósmyndir geta líka skreytt veruleikann.

  1. Þrátt fyrir óveður gærdagsins keyrði ég af stað rétt fyrir klukkan níu frá koti mínu í Hvalfirði í átt til Reykjavíkur. Ég hafði lofað að vera mættur stundvíslega klukkan tíu í stofu 103 í Lögbergi. Veðurstofa Íslands, sem er áreiðanleg stofnun, hafði varað ferðalanga við að keyra Kjalarnes að nauðsynjalausu. Viðvörun veðurfræðinganna velti ég fyrir mér áður en ég lagði af stað og komst að þeirri niðurstöðu að nauðsyn knúði mig til ferðarinnar. Ég keyri á skriðdreka og taldi mig því óhultan þótt vindhraðinn niður hlíðar fjallanna væri ægilegur.
  2. Ég var kominn tímanlega. Fyrir utan stofu 103 í Lögbergi tók lektorinn Huldar Breiðfjörð á móti mér með sínu undirleita brosi. Ég kann vel við svipinn á Huldari þegar hann brosir á þennan hátt.
  3. Huldar var ekki einn um að taka á móti hinum langa útlaga. Prófessor Rúnar Helgi kom líka til að kasta kveðju sinni á gestinn. Þegar ég flutti frá Íslandi var Rúnar ekki prófessor og Huldar var ekki lektor. Ég hugsaði til baka og reyni að rifja upp hvað þessir góðu menn voru árið sem ég tók upp mitt hafurtask en komst ég ekki að annarri niðurstöðu en að þeir hafi báðir  verið rithöfundar, og einungis það, og meira að segja kannski í lausu lofti. Þvílík seigla.
  4. Ég gladdist eiginlega mjög að hitta Rúnar Helga sem að hans sögn hafði ekki séð mig síðan ég flutti búferlum. Líklega er það rétt. Í gærkvöldi þegar ég lagðist til svefns að loknum annasömum degi hugsaði ég með mér hvað mér hefði hlýnað um hjartarætur að hitta Rúnar Helga. Mér er mjög hlýtt til hans.
  5. Nemendahópurinn sem ég hafði verið beðinn um að tala við í Háskóla Íslands var ekki sérlega stór. Í mesta lagi þrjátíu einstaklingar. Þegar ég skrifa orðið einstaklingar kemur mér í hug að allir þeir sem mynduðu nemendahópinn voru konur – og ég get hiklaust bætt við ungar konur.
  6. Ég ræddi við ungu konurnar í tvo klukkutíma – stundum sagði ég satt og stundum skreytti ég sannleikann með slaufum sem kannski væri erfitt að skilgreina sem sannleika. Það gerði ég til að gefa samtalinu í kennslustofu 103 örlítinn lit.
  7. Ég hafði lofað að vera kominn á Kaffi Vest klukkan 12.30. Áður en ég flaug til Íslands á fimmtudaginn var hafði ég fengið bréf frá manni sem á mínu heimili er alltaf kallaður franski maðurinn. Hann hafði sagt að hann hefði undanfarnar vikur smíðað gífurlega voldugan loftkastala sem hann langaði til að sýna mér. Og einmitt þarna klukkan 12:30 á Kaffi Vest átti sýningin á loftkastalanum að hefjast. Þegar ég gekk inn rétt fyrir umsaminn tíma var undirbúningur fyrir sýninguna í fullum gangi. Franski maðurinn stóð fyrir utan Kaffi Vest og stýrði í gegnum stóran glugga – á vesturhlið veitingasalarins – sveit aðstoðarmanna við að stilla loftkastalanum upp á borði innarlega í kaffihúsinu og næst austurveggnum. Ég ákvað að kaupa veitingar á meðan undirbúningsstarfinu lauk.
  8. Jón Karl Helgason kom líka á sýninguna. Hann mældi bygginguna af nákvæmni og gaf góð ráð til að styrkja burðargrindina.
  9. Páll Valsson kom síðar (að lokinni sýningunni) og settist á móti mér. (Leikkonan Halldóra Geirharðsdóttir hafði keypt sér veitingar og  smokraði sér í átt til sætis úti í horni og sagði „sjá, spekingar spjalla,“ þegar hún gekk framhjá þessum hópi manna.)
  10. Í dag hef ég ákveðið að útvega mér bók Olgu Tokarzcuk, Drag plóg þinn yfir bein hinna dauðu. Bókina las ég á ensku fyrir nokkrum árum og þótti hún mjög góð. Gott að bókin fáist nú á íslensku.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.