Á hlaupum mínum í morgun hlustaði ég á íslenska hljóðbók eins og svo oft áður. Í þetta sinn hlustaði ég á bók eftir Hlín Agnarsdóttur sem heitir Meydómur. Ég hef aldrei lesið neitt eftir Hlín Agnarsdóttur og veit lítið um höfundarferil hennar sem af einhverjum ástæðum hefur farið undir radarinn hjá mér. Þessi bók Hlínar er einskonar ævisaga – eða ég veit ekki hvort hún sé skilgreind sem skáldsævisaga. Hvað um það. Bókin finnst mér alveg ágæt þótt ég hafi ekki sömu ánægju af að hlusta á sögu Hlínar og síðustu sögu sem ég hlustaði á, Sandárbókina eftir Gyrði Elíasson sem mér finnst bæði fallega lesin og einstaklega fallega skrifuð.
Það gerðist þó svolítið furðulegt þegar ég hljóp á fullri ferð eftir Strandvejen með Hlín Agnarsdóttur í eyrunum að lýsa þeirri stundu þegar hún er kölluð snemma morguns út á spítala því pabbi hennar var að deyja. Þetta var í janúar 1981. Eftir stutta lýsingu á veru hennar við dánarbeð föður síns lýsti hún andrúmslofti spítalans. Og allt í einu kemur til mín mynd af Hlín Agnarsdóttur þegar hún stendur á þeim sama spítalagangi og ég var nýbyrjaður að vinna á í janúar árið 1981. Ég var nýorðinn 19 ára og nýútskrifaður stúdent. Í janúar fékk ég einmitt vinnu á öldrunardeild Borgarspítalans sem var til húsa í Heilsuverndarstöðinni við Barónsstíg og ég mundi allt í einu eftir að hafa hitt Hlín þarna á ganginum með þáverandi kærasta sínum – ég man ekki hvað hann heitir en ég man að hann var Grétarsson – sem hafði spilað handbolta með Fylki.
Ég var næstum búinn að gleyma þessu tímabili lífs míns þegar ég gekk um í hvítum einkennisbúningi og gamla fólkið á spítalanum hélt að ég væri læknir. Allt í einu spratt fram þessi tími í líf mínu og það í ævisögu Hlínar Agnarsdóttur. Það þótti mér skrýtið.