Í morgun fór ég að velta fyrir mér hinum skyndilegu vinsældum Hlínar Agnarsdóttur í tengslum við hljóðbókarútgáfu hennar á Meydómi. Ég hafði hitt kunningja minn á ferðum mínum um Reykjavík í síðustu viku og talið barst að Storytel og útgáfu hljóðbóka. Hann sagði mér – í óspurðum fréttum – að hann hefði fyrir satt að á fyrstu útgáfuhelgi Meydóms hennar Hlínar á Storytel hefðu fleiri en 300 manns hlustað á bókina til enda. Þegar bókin kom út í prentaðri útgáfu seldist bókin í rétt rúmlega 300 eintökum í bókabúðum fyrir jól. Ekki veit ég hvort hér sé rétt farið með tölur. En svona heyrði ég söguna.
Ég segi frá þessu hér vegna þess að ég hef séð hversu valdamikil útgáfa og valdamikill aðili Storytel er á íslenskum bókamarkaði. Má segja að Storytel geti nánast búið til metsölubók af eigin rammleik, lyft höfundi upp úr gleymsku og ryki upp í vinsældir og frægð. Bók Hlínar – sem er algerlega fyrirtaksgóð bók – er dæmi um hvernig Storytel stýrir umferð hlustenda og áskrifenda að ákveðnum bókum. Ekkert í útgáfusögu Meydóms gefur tilefni til að bókin fái sérstaka athygli í mars árið 2022. Það er eingöngu vegna þess að Storytel sér efnahagslegan ávinning af að kynna bók Hlínar sérstaklega enda er fyrirtækið útgefandi að hljóðbókinni. Hlutfall þeirra bóka sem Storytel á útgáfuréttinn á og eru á metsölulista Storytel er auðvitað mjög hátt. Sem sagt þær bækur sem Storytel hefur efnahagslegan hag af að áskrifendur hlusti á (lesi) eru mun líklegri til að vera sett á forsíðu Storytel-appsins (eða fá sérstaka kynningu).
Þriðja hver bók sem er lesin á Íslandi er lesin (hlustuð) í gegnum Storytel. Ég veit ekki hversu hollt þetta er fyrir íslenskan bókamarkað að einn aðili hafi svona gífurleg völd. Ekkert bendir til að íslensk forlög geti spyrnt við fótunum og keppt við Storytel. Því er augljóst að völd þeirra eiga bara eftir að vaxa. Leiðarljós Storytel verður aldrei framgangur íslenskra bókmennta eða hagsmunir íslenskra rithöfunda heldur efnahagslegur ávinningur fyrirtækisins. Það er eðli fyrirtækja á hlutabréfamarkaði og í sjálfu sér ekkert athugavert við það. En slík nálgun getur auðvitað verið skaðleg fyrir menningarlífið í landinu.