Hlaupaspottar

Hér fyrir ofan er mynd af hlaupabraut morgunsins. Í litla bænum mínum skín sólin og hitinn er kominn yfir 12 gráður. Það er komið vor. Ég hljóp 10,5 km, fram og til baka eftir Strandvejen – sem sagt meðfram austurströnd Norður-Sjálands. Hlaupaveðrið var frábært. Nú er það svo í lífi mínu að ég er mikill áhugamaður um keppni af hvaða tagi sem er. Mér áskotnaðist fyrir nokkru hlaupa-app sem heitir Strava sem mælir alla líkamsstarfsemi mína á meðan ég hleyp (hjartslátt, vöðvasýru, andardrátt, sálarástand, hjartaálag, fjölda skrefa á mínútu…} og mælir einnig vegalengdir, hraða og svo framvegis. Einn Strava-fítus finnst mér alveg frábær. Forritið velur nokkra hlaupaspotta á hlaupaleiðum og veitir hlauparanum jafnframt upplýsingar um frammistöðuna, hver sé besti tími hans á hlaupaspottanum hingað til, hvar hann er í röðinni borið saman við aðra hlaupara sem hafa hlaupið sama hlaupaspottta … og margt annað.

Í gær hljóp einn félagi minn, Jesper, Stoppested-Havn-hlaupaspottan (500 metrar) á 2:42 min – þetta er hluti af hlaupabrautinni norður Strandvejen – og var það persónulegt met og því ákvað ég að slá mitt persónulega met á sama spotta í hlaupi dagsins. 1:55 var minn tími á þessum 500 metrum og varð ég svo glaður og tók mynd út í loftið.

Hér er mynd af hlaupaspottanum þar sem ég setti hlaupametið. .

Svona lifi ég einföldu lífi. Hlægilegt hlaupamet gerir mig kátan og hamingjusaman það sem eftir lifir mánaðarins. Yo! Ég fann það á íslensku félögum mínum þegar ég hitti þá í Reykjavík í síðustu viku að þeim finnst nóg um einveru mína (einn stakk upp á að ég fengi að sitja í kontórsamfélagi inn í Kaupmannahöfn og ég heyrði ekki betur en að hann gæfi í skyn að ég væri í áhættuhópi fyrir Alzheimer ef ég hitti ekki fleira fólk á hverjum degi). En ég held að hinir íslensku félagar mínir geri sér ekki grein fyrir því að ég er í samskiptum við fjölda fólks í hverri viku  – að vísu hefur vinskapur minn við danska félaga ekki eins djúpar rætur og við mína gömlu íslensku vini, en við því er ekkert að gera.

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.