Að þýða bók afturábak

Fyrir nokkrum mánuðum keypti ég mér bókina Sælureitur agans eftir svissneska rithöfundinn Fleur Jaeggy. Ég mun víst vera einn af 80 kaupendum þessarar fínu bókar sem kom út í ársbyrjun 2022 hjá bókaforlaginu Uglu. Mér skilst á forleggjara Uglu að þýddar bækur af sama tagi og Sælureitur efans seljist að jafnaði í 80 til 140 eintökum á íslensku. Ég las bókina mér til mjög mikillar ánægju. Texti bókarinnar er sérkennilega tregafullur og lýsir lífi fjórtán ára gamallar stelpu sem hefur varið mestum hluta æfi sinnar á fínum heimavistarskóla í Ölpunum. Þrátt fyrir tregafullan tón bókarinnar svífur ákaflega lævís kaldhæðni yfir frásögninni þannig að úr verður merkilega blanda trega og kaldhæðni. Frásögnin verður því bæði falleg og uggvænleg.

Þýðing Brynju Cortes Andrésdóttir þykir mér mjög fín en ég heyrði haft eftir henni að þessi þýðingin hefði verið henni ægilega erfitt verkefni. Bókin er ekki nema 138 síður en samt ætlaði Brynju aldrei að takast að komast í gegnum bókina. Á endanum ákvað hún að beita tækni sem hún lærði af sænska þýðandanum John Swedenmark (hann er sá sænskur þýðandi sem snýr flestum íslenskum bókum yfir á sænsku). John Swedenmark mun víst stunda það að þýða bækur aftur á bak. Það er að segja hann byrjar á síðustu setningu bókarinnar, síðan tekur hann næst síðustu setninguna og svo koll af kolli. Brynja ákvað að prófa þessa aðferð á bók Fleur Jaeggy til að reyna að komast áfram með þýðinguna. Mér skilst að þessari aðferð ætli hún aldrei að beita aftur.

ps. Ég er aðeins einu handtaki frá Fleur Jaeggy, eins og maður segir, því ég hef tekið í hönd manns hennar. Fleur Jaeggy fæddist árið 1940 og fluttist 28 ára gömul tíl Ítalíu þar sem hún fékk vinnu hjá ítalska bókaforlaginu Adelphi. Þar á bæ var aðalmaðurinn Roberto Calasso (hann dó árið 2021) sem var hálfgerð goðsögn í heimi bókaútgefenda heimsins. Fleur og Roberto giftust. En það sem ég vildi sagt hafa. Ég var einu sinni á ráðstefnu útgefenda í Berlín með Sigga heitnum Svavars. Siggi sem þá var formaður Félags íslenskra útgefenda (og ég var varaformaður) hafði miklar áhyggjur af því að ég yrði ekki nógu vel til fara á þessum útgefendafundi og yrði íslenskum útgefendum þannig til skammar. Siggi sjálfur var alltaf gífurlega snyrtilegur til fara. Áður en ég lagði af stað til Berlínar keypti ég mér því ný föt til að þóknast Sigga. Ég var einmitt staddur í þessum nýju fötum þegar ég hitti Roberto Calasso á bar í Berlín eftir ráðstefnudag. Við áttum langt spjall en vandinn var sá að ég gat ekki alveg einbeitt mér að samtalinu við goðsögnina því mér fannst svo óþægilegt að vera í þessum nýju fötum og ég er ekki frá því að ég hafi fitnað þennan vetur og fengið vísi að bumbu. Sennilega strekktist maginn óþægilega út í nýju skyrtuna mína og olli því að samtalið við ítalska ofurforleggjarann fór fyrir ofan garð og neðan hjá mér.

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.