Gleðilegar póstsendingar.

Í nýlegu viðtali við Sally Rooney, hinni vinsælu írsku skáldkonu, segir hún frá óvenju gleðilegri reynslu. Nokkrum dögum fyrir viðtalið – sem enn hefur ekki verið birt – hafði skáldkonan opnað póstkassann sinn í litla, írska bænum Castlebar í Mayo-sýslu. Venjulega er ekkert í póstkassanum annað en auglýsingapésar eða gluggapóstur. („Ég er ein af þeim sem er leið yfir því að bréfið sem samskiptaform er dautt,“ sagði hún í viðtalinu). En í þetta sinn beið hennar þykkt umslag og í því var bókin The Golden Bowl eftir Henry James. „Ég hef sjaldan verið jafn glöð,“ sagði skáldið. „Fátt hefur vakið jafn innilega gleðitilfinningu og þessi póstsending frá vini mínum í Birmingham. Ég vissi ekkert um þessa bók en mér fannst hún svo girnileg að ég hellti mér yfir hana eins og glorsoltið villidýr.“

Ég segi frá þessari játningu Sally Rooney hér vegna þess að ég varð sjálfur fyrir nánast sambærilegri reynslu í síðustu viku þegar ég opnaði póstkassann í smábænum mínum í Helsingør kommune. Tunglið – útgáfufyrirtækið – hefur það að markmiði sínu að gleðja fólk með óvæntum póstsendingum. Og þeim tókst sannarlega að gleðja mig í síðustu viku þegar mér barst Ljóðabréf þeirra. Þótt innihald bréfsins væri í mínum augum misgott – sumt mjög gott og annað síðra – var póstsendingin bara svo gleðileg. Að fá ljóð í pósti er ómótstæðilega ánægjulegt.

ps ég ætlaði að birta mynd af Ljóðabréfi Tunglsins en þar sem ég er staddur í fjallaþorpi í Frakklandi og ljóðabréfið er í Danmörku gat ég ekki myndað það. Þess í stað tek ég mynd út um dyrnar á fjallakofanum.

pps Þessu kannski óskylt. Fyrr á þessu ári – ég er ekki alveg viss hvenær, held þó að það hafi verið í lok apríl  – kom bók Sally Rooney Fagri heimur hvar ert þú? í þýðingu Ingunnar Snædal. Ég, sem gamall útgefandi, hefði haldið að útgáfa bókarinnar á íslensku mundi vekja töluverða athygli og áhuga. Ég leit að gamni mínu á vinsældalista Eymundsson áðan og sá ekki örla á bókinni á metsölulistum búðarinnar. Ha? hugsaði ég. Þrjár efstu bækurnar á metsölulista búðarinnar eru svokallaðar feel-good bækur; Jenny Colgan, Sarah Morgan og Sophie Kinsella en engin Sally Rooney. Nú varð ég pínulítið hissa.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.