Ursula og Saramago

Þegar Ursula K. Le Guin var 81 árs ákvað hún að byrja að skrifa það sem hún neitaði að kalla blogg heldur vildi frekar kalla opinbera dagbók. Henni fannst orðið blogg svo skelfilegt, svo hræðilega ljótt og það minnti hana á einhvern nefsjúkdóm. „Æ, hún á erfitt með að tala hún er með blogg í nösunum.“ Sjálft nafnið á þessu ritformi fældi Ursulu frá því að skrifa. En þegar hún las færslur José Saramago sem hann byrjaði að birta þegar hann var 86 ára varð hún svo upprifin að hún ákvað sjálf að gera það sama og Saramago: skrifa opinbera dagbók.

Nú kemur svigi: (Þeir sem vita ekki hver Ursula K. Le Guin er upplýsist hér í millimálsgrein að hún er einn þekktasti science fiction höfundur veraldar. Hún bjó lengst í Portland í Oregon (norðvesturhluti Bandaríkjanna). Hún dó árið 2018, þá 88 ára gömul. Þekktustu bækur hennar eru: The Dispossessed og The Left Hand of Darkness (frábær titill)).

Það var árið 2010 sem Ursula rakst á bloggfærslur Jose Saramago (portúgalskur höfundur sem fékk Nóbelsverðlaunin árið 1995) en færslurnar höfðu sama ár verið gefnar út á bók í enskri þýðingu undir heitinu The Notebook. Undir áhrifum af þessum fínu skrifum nóbelsverðlaunahafans hóf Ursula þegar í stað að skrifa sínar eigin bloggfærslur og hélt því áfram fram til ársins 2017. Úrval þessara skrifa kom út í bókinni No Time to Spare árið 2017.

Ég segi frá þessu hér þar sem mér barst í nótt (þar sem ég er staddur uppi í frönsku ölpunum) ákaflega fín kveðja frá Íslandi sem hljómaði einhvern veginn svo: „… Takk fyrir þetta frábæra blogg.“ Það þarf ekki að nota mörg orð til að lýsa því hve glaður maður verður þegar fólk ómakar sig við að senda hvert öðru fallegar kveðjur. En ég tók eftir því að konan sem sendi kveðjurnar kallaði dagbókarfærslur mínar blogg. Alveg eins og Ursula á ég mjög erfitt með að nota orðið blogg yfir þessi dagbókarskrif. Orðið finnst mér svo ljótt (stytting á bio-log) og minnir mig – og hefur alltaf gert – á hljóðið þegar steini er kastað ofan í djúpt stöðuvatn: „plúbb … blogg … glúgg.“ Það finnst mér mikið tómahljóð.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.