Ljósmynd í pósti frá Íslandi.

Ég hafði ætlað að skrifa um Margaret Atwood og hina svokölluðu Myth-seríu sem ég gaf út hjá Bjarti árið 2005 eða þar um kring. Mér verður satt að segja oft hugsað til Atwood og kynna minna af henni og aðdraganda þess að ég tók þátt í þessu alþjóðlega samstarfi um að gefa út gamlar goðsögur í nýjum búningi. Ég las nefnilega í gær í útlendu blaði að Jamie Byng, skoski forleggjarinn sem sjósetti myth-verkefnið, sé enn að og ætli sér að gefa út hundrað bækur í ritröðinni þótt útlendu forlögin sem tóku þátt í verkefninu í upphafi hafi smám saman helst úr lestinni. Margaret Atwood var ein þeirra frægu höfunda sem var ráðin til að skrifa goðsögn í nýjum búningi og ég gaf út bókina hennar, Penelópukviðu. Hún kom til Íslands árið 2005 og ég keyrði hana milli staða í Reykjavík, nákvæmlega eins og ég hafði flutt Murakami milli staða tveimur árum fyrr. Sjón og bók hans Argóarflísin var framlag Íslands eða Bjarts eða Sjóns til ritraðarinnar. En mitt í hugleiðingunum um þetta tímabil lífs míns barst mér tölvupóstur frá Íslandi sem hljómaði nákvæmlega svona:

„Þú, hinn mikli bókmenntablaðamaður, hvað heldurðu eiginlega að sé  gerast á þessari mynd?“

Og póstinum fylgdi ljósmyndin sem skreytir þessa færslu. Ég starði lengi á myndina til að skilja hvað ég ætti að sjá en satt að segja verð ég að viðurkenna að ég skildi ekki neitt. Ég gat með engum móti séð hið stórkostlega í ljósmyndinni. Myndin sýnir  þrjár konur í einhvers konar vistarverum sem erfitt er að skilgreina. Rautt slökkvitæki í einu horninu, teikning á vegg og gervitré í bakherbergi. Eru konurnar að pukra eitthvað? Hvað er Harry Potter-bókakápa að gera á borðinu? Ég er viss um að ein kvennanna er Guðrún Vilmundardóttir, útgefandi hjá bókaforlaginu Benedikt (það er sú sem er lengst til vinstri). Konan í svarta kjólnum með hvítu punktana er sennilega (gleraugun rugla mig aðeins í rýminu) skáldkonan Auður Ava Ólafsdóttir en ég hef ekki hugmynd um hver sú er sem er lengst til hægri. Hún virðist punkta eitthvað hjá sér í minnisbók. Allar eru þær að skoða litaspjald. Eitthvað segir mér að þetta sé prufulitir fyrir saurblöð nýrrar bókar Auðar Övu – ef til vill er Auður Ava búin að skrifa nýja skáldsögu. Mér sýnist Auður ætla að velja hvítan lit á saurblöð bókarinnar, hún bendir að minnsta kosti á hvíta litinn, lit  mildi og gæsku. Gæti verið að Auður ætli að fjalla um skáldskapinn í nýju sögunni sinni, eða um ástina og þar af leiðandi um þjáninguna, fegurðina og orðin. Kannski vill hún gera grein fyrir óreiðu lífsins, fjalla um eigin hjartslátt sem heldur fyrir henni vöku um nætur.

En ekkert af þessu veit ég og ég er eiginlega enn að bíða eftir skýringu á póstsendingunni frá Íslandi.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.