Húðflipinn

Þegar ég vakna hérna í húsi í norðurhluta Ítalíu geng ég út á svalir. Við mér blasa skógivaxin fjöll, klettavaxnir fjallatoppar og fyrir neðan mig – neðar í dalnum er húsþyrping. Ég vakna um það bil þegar bændurnir hér í kring fara á stjá til að bjástra við ólífutrén sín. Oft er erfitt að koma auga á þá á milli trjánna en ég heyri þegar þeir ræsa vélsagir sínar.

Hér á Ítalíu gengur lífið sinn hægagang. Eftir morgunkaffið geng ég af stað niður veginn sem liggur niður langa og bratta brekku. Ég geng hratt bæði niður og upp. Þetta er tæplega sjö kílómetra ganga og nú er hraðametið 54:55 mínútur. Ég hef því miður ekki getað hlaupið. Ég tognaði í 400 m kapphlaupi við Davíð. Vöðvi aftan á læri rifnaði. Ég vonast til að geta hlaupið á föstudag og ætla að slá met mitt sem er 38:12 min þessa sömu leið. Þetta er viðurstyggilega erfið hlaupaleið því brattinn er svo mikill. En ég hlakka til á föstudag ef ég verð orðinn betri í lærinu.

Þessa dagana les ég langa bók eftir franskan mann, Philippe Lancon. Hann var einn af blaðamönnum franska blaðsins Charlie Habo og var skotinn í árásinni á blaðið í janúar árið 2015. Philippe lifði af en hálft andlitið var skotið af. Hakan og kjálki tættust af andlitinu þegar byssukúlur lentu í andlitinu á honum. Bókin heitir Húðflipinn og vísar til húðflipans sem varð eftir á neðri hluta andlitsins eftir skotárásina. Þetta er fín bók og vel skrifuð.

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.