Ljóminn frá englahernum

Það er óvenju stillt í Hvalfirðinum þennan morgun. Varla hreyfir vind og hafflöturinn er sléttur eins og spegill. Ljósið í Kjósinni, handan fjarðarins, minnir á ljómann frá englaher. Ég velti fyrir mér hverjum ég eigi að þakka fyrir að fá að verða vitni að þessari fegurð morgun eftir morgun. Ég verð ansi glaður, eða ég finn fyrir tilfinningarlegu uppnámi þegar ég horfi hér yfir fjörðinn og ég hef oft sagt við sjálfan mig, bæði upphátt og í hljóði: ég er hér og þú ert þar sem þú ert.

Ég kláraði bók í gær sem tók mig ekki nema þrjár eða fjóra daga að lesa bókina þótt hún væri mörg hundruð blaðsíður. Ekki vegna þess að sagan væri svo áhugaverð eða spennandi. Þetta var glæpasaga Håkan Nessar, hans nýjasta, Skák undir eldfjallinu. Ég hef alltaf verið nokkuð ánægður með sænska glæpasagnahöfundinn og hef lesið flestar bóka hans mér til töluverðar ánægju. En með þessa bók varð ég fyrir miklum vonbrigðum. Ég les fjölmargar glæpasögur ár hvert – mig langar til að læra – en verð æ oftar að viðurkenna fyrir sjálfum mér að færri og færri þessara bóka höfða til mín. Klisjurnar eru orðnar svo himinhrópandi í flestum bókanna, og sama formúlan er endurunnin … aftur og aftur. Håkan Nesser, sem hefur verið nokkuð sér á báti í hinum norræna glæpalitteratúr, hefur ekki verið í stuði þegar hann skrifaði þessa síðustu bók sína og hefur sjálfur fallið fyrir hverri klisjunni á fætur annarri mér til mikillar armæðu

Ég byrjaði í gærkvöldi á að lesa Annála Bob Dylans í þýðingu Guðmundar Andra Thorssonar. Það er hressandi lesning. Maður getur verið handviss um að texti Guðmundar Andra sé góður og svo kemur í ljós að Dylan sjálfur er ansi pennafimur og skemmtilegur. Um daginn  bauðst  mér að kaupa miða á tónleika Bob Dylans sem hann  ætlar að halda í vetur í risastórum tónleikasal í útjaðri Kaupmannahafnar. Ég íhugaði tilboðið lengi en uppgötðvaði að ég hef ekki áhuga á að fara á tónleika hjá Dylan. Ég komst að raun um að ég freistaðist til að kaupa miða, ekki til að sjá Dylan, heldur til að hafa séð Dylan. Ég hef heyrt að hann sé í seinni tíð farinn að spila meira á hljómborð á  tónleikum. Illar tungur segja að það sé til þess að hafa eitthvað til að styðja sig við á sviðinu enda sé Dylan orðinn háaldraður og hrumur.

En nú fer ég út að hlaupa. Ég ætla að hlaupa eftir Hvalfjarðarveginum í átt að kirkjunni hér í firðinum, Hallgrímskirkju í Saurbæ. Ég varð fyrir því óláni fyrir nokkrum vikum að slíta vöðva aftan á lærinu og hef því þurft að taka mér hvíld frá hlaupum, langa hvíld, en nú þjálfa ég nýja vöðvann hægt og rólega. Ég hljóp 5 kílómetra í gær – án óþolandi verkja –  og í dag íhuga ég að hlaupa alla vega 8 kílómetra. Á hlaupunum ætla ég að hlusta á bók eftir danskan blaðamann sem hefur í mörg ár stúderað stóíska  heimspeki og tekst víst að miðla þekkingu sinni á áhugaverðan hátt. Ágætt.

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.